139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lækkun flutningskostnaðar.

517. mál
[16:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp.

Mig langar að staldra aðeins við það sem hæstv. ráðherra sagði í lokaorðum sínum. Ég held að þetta verði að skoða þannig að niðurgreiða þurfi flutninginn á landsbyggðinni þar sem lengst er að fara, vegna þess að þetta er orðinn það mikill kostnaður hjá fyrirtækjunum að það er farið að raska mikið búsetuskilyrðum og starfsskilyrðum fyrirtækjanna á landsbyggðinni. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þegar bæði þarf að flytja aðföngin til sín og svo aftur frá sér inn á markaðinn er það farið að há fyrirtækjunum á landsbyggðinni mjög mikið. Ég bind því vonir við að hæstv. ráðherra fari strax í þá vegferð. Það er mjög mikilvægt að það dragist ekki á langinn að koma þeirri skoðun áfram til að hægt sé að bregðast við því ófremdarástandi sem nú er til að tryggja samkeppnisstöðu og búsetuskilyrði um allt land.