139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali.

526. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir að þetta form er mjög knappt og þetta voru margir liðir sem hæstv. ráðherra þurfti að fara yfir, en ég get ekki brugðist við gagnvart meginspurningunni af því að ekki kom svar í fyrra svari hæstv. ráðherra.

En þetta hljómar allt mjög vel. Það er greinilegt að mikið hefur verið gert og þau tvö mál sem kannski hafa fengið mesta umræðu í þinginu eru bann við kaupum á vændi og bann við nektardansi. Bæði þau mál fengu gríðarlega athygli í þinginu og voru umdeild á sínum tíma en ég held að allir séu mjög sáttir við það að við tókum þau skref.

Það sama held ég að verði um aðgerð 13 sem hefur verið umdeild. Auðvitað er það umdeilt að lögreglan fái þær heimildir að geta rannsakað ákveðna aðila sem eru grunaðir um alvarleg brot án þess að brotið sé tiltekið. Þetta er almenn grunsemd en það er ekki tiltekið brot. Þá fá þeir samt heimildir til að rannsaka slíka aðila.

Ég vil halda því mjög stíft til haga að mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi bendi til þess að það verði að veita þessar heimildir. Ég vil líka nefna að Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði í fjölmiðlum að hún hafi verið mjög mikil efasemdarmanneskja um þessar heimildir. Og ég ætla að vitna í hana, með leyfi virðulegs forseta:

„En eftir að hafa fengið ákveðnar greiningar, upplýsingar og gögn, meðal annars um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, tel ég mér ekki stætt á öðru en að bregðast við.“

Þessi greining sem við sjáum opinberlega, við þingmenn og aðrir í samfélaginu, er hin opinbera útgáfa. Ráðherrar hafa aðgang að víðtækari upplýsingum sem almenningur sér ekki vegna öryggismála. Það er alveg greinilegt að miðað við það sem Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, fékk að vita taldi hún sér ekki stætt á öðru en að grípa til aðgerða og vildi veita lögreglunni (Forseti hringir.) þessar heimildir en henni gafst ekki tími til þess. Ég bind því (Forseti hringir.) miklar vonir við hæstv. innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, í þessum efnum.