139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

þróun fóstureyðinga.

527. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er merkilegt að glugga í skýrsluna, það er margt sem kemur fram, t.d. að fæðingatíðni meðal kvenna hér á landi hefur minnkað um helming frá því um 1960 þegar hún var hvað mest en þá eignaðist hver kona að meðaltali fjögur börn á ævinni. Núna er fæðingatíðni árið 2009 2,2 börn á hverja konu, það er gríðarleg breyting.

Við sjáum líka miklar breytingar á tíðni fóstureyðinga þar sem hún hefur aukist. Ef tímabilið frá 1991, þ.e. þegar hlutfallið er lágt, er skoðað til dagsins í dag er um að ræða 47,6% aukningu, og frá 2005 hefur orðið 12% aukning.

Ég skildi hæstv. velferðarráðherra þannig að í samanburði við önnur norræn ríki væri ástandið hér ekki svo slæmt, ef svo má að orði komast. Mér heyrðist að hér á landi væru framkvæmdar næstfæstar fóstureyðingar ef miðað er við Norðurlöndin, það er einungis eitt ríki sem er með færri fóstureyðingar. Mér fannst líka athyglisvert að heyra það, og það reyndar kemur fram í skýrslunni, að ungum stúlkum sem fara í fóstureyðingu fer fækkandi. Það er jákvæð þróun að mínu mati.

Það er líka merkilegt að hlutfallið í aldurshópnum 40 ára og eldri skuli hækka. Það kemur svolítið á óvart af því að maður skyldi nú halda að fólk mundi ekki lenda í þess háttar aðstæðum, ef maður getur sagt svo, á þeim aldri. En ég heyri hvað hæstv. ráðherra segir, það er ekki tilefni til þess að grípa til neinna sérstakra aðgerða til þess að hafa áhrif á þessar tölur. Ég tel þó mikilvægt að við fylgjumst áfram með eins og hæstv. ráðherra ætlar að gera. Ef tölurnar fara hækkandi á næstu árum tel ég að grípa verði til upplýsingaherferðar eða einhvers slíks.