139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú verð ég einfaldlega að leyfa mér að velta vöngum því að auðvitað veit ég ekki á hverju allir framsóknarmenn byggja afstöðu sína, en tel mig geta ályktað eitthvað um það. Frú forseti verður að afsaka það að ég er að fara í vangaveltur, en ekki endilega fullyrðingar. (Gripið fram í.) Já.

Ég gef mér að framsóknarmenn hafi orðið þess varir að krónan hefur skipt sköpum á undanförnum missirum, t.d. við það að halda atvinnuleysi í lágmarki. Á Írlandi er atvinnuleysi orðið tvöfalt meira en á Íslandi, 14%, og á Spáni þrefalt meira svo möguleiki gjaldmiðilsins á því að sveiflast með hagsveiflunni hefur komið í veg fyrir að atvinnuleysi hafi farið algjörlega úr böndunum eins og svo víða annars staðar.

Menn hafa líka séð að það reyndist ekki rétt sem menn ímynduðu sér um evruna, að hún mundi tryggja sömu vexti alls staðar. Það kom á daginn að það gekk einfaldlega ekki upp. Nú eru Portúgalar að borga 7% vexti og Írar, sá ég í gær, eru farnir að borga 9,6% vexti á ríkisskuldabréfum hjá sér. Þá geta áhugamenn um Icesave farið að leika sér að því að hræða fólk með þeirri tölu. 9,6% vextir, hvers vegna er þetta? Jú, Írar þiggja svokölluð neyðarlán. Þá segja menn: Já, þeir hafa þó þennan bakhjarl varðandi evruna, en það er ekki tilvikið vegna þess að Evrópusambandið, þessi svokallaði bakhjarl þeirra, rukkar Íra um hærri vexti en t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svo bakhjarlinn er ekki til staðar í því tilviki. Írar blóta reyndar evrunni í sand og ösku þessa dagana.

Hins vegar geta augljóslega verið ýmsir kostir við stöðugan gjaldmiðil. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur velt þessum hlutum meira fyrir sér en flestir þingmenn og ef það er eitthvað sem framsóknarmönnum líkar eru það rök svo þeir verða eflaust (Forseti hringir.) tilbúnir að hlusta á rökin fyrir ólíkum leiðum í gjaldmiðilsmálum. Umræðan verður þá að vera byggð á rökum eins og hv. þm. (Forseti hringir.) Lilja Mósesdóttir er yfirleitt mjög fær í frekar en einhverri hugmyndafræði sem ekki hefur fengist staðist.