139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar undir þessum lið til að beina máli mínu til formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, og ræða við hann um ástandið í Líbíu. Eins og allir vita er það algjörlega skelfilegt og á þeim 14 dögum sem liðnir eru er talið að a.m.k. þúsund manns hafi látist í átökunum, átökum hræðilegs harðstjóra við sitt eigið fólk.

Ég fagna stuðningi íslenskra stjórnvalda úr utanríkisráðuneytinu á mánudaginn við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem íslensk stjórnvöld styðja aðgerðir og ályktanir Sameinuðu þjóðanna gagnvart Líbíu. Ég tel það mjög mikilvægt en við þurfum að líta til þess hvað hugsanlega gæti gerst næst. Leiðtogar heimsins útiloka greinilega ekki beitingu hervalds gegn þessum harðstjóra sem eins og ég segi hikar ekki við beita sínum eigin her á sína eigin þjóð.

Obama Bandaríkjaforseti hefur ekki sagst geta útilokað frekari aðgerðir, Clinton utanríkisráðherra segir alla möguleika vera á borðinu. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, talar um að víður rammi aðgerða sé mögulegur. David Cameron útilokar ekki með nokkrum hætti beitingu hervalds. Ítalir hafa afturkallað samning við Líbíu sem gerir Atlantshafsbandalaginu kleift að fara hugsanlega inn í Líbíu frá Ítalíu með sinn flota sem er staðsettur þar. Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna gagnvart NATO segir að þjóðir heims þurfi að taka stöðuna og taka þá hugsanlega ákvörðun um að beita hervaldi gagnvart Líbíu.

Því vil ég spyrja formann utanríkismálanefndar, (Forseti hringir.) þingmann Vinstri grænna, (Forseti hringir.) hver sé stefna hans flokks og stefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum. Útilokar hv. þingmaður beitingu hervalds gegn (Forseti hringir.) Líbíu ef alþjóðasamfélagið telur það nauðsynlegt?