139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þá yfirlýsingu sem íslensk stjórnvöld hafa gefið um þetta mál og stuðning þeirra við samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Ástandið í Líbíu og reyndar víðar í arabaheiminum er skelfilegt, en Líbía hefur nokkra sérstöðu vegna viðbragða stjórnvalda þar í landi. Þau eru forkastanleg og ber að fordæma.

Sú atburðarás sem við höfum orðið vitni að í arabaheiminum að undanförnu er fyrir margra hluta sakir afar merkileg. Við vitum að sjálfsögðu ekki hvar hún endar, við vitum hvað hefur átt sér stað og hvernig hefur verið tekið á málum, við höfum fylgst með því að ný kynslóð fólks í þessum heimshluta lætur ekki bjóða sér það einræði og þá kúgun sem viðgengist hefur, stundum af einræðisherrum sem eru eingöngu að hugsa um eigin hagsmuni en stundum í nafni trúar. Stundum er Kóraninn að vopni, ekki alltaf. (TÞH: Stundum er það ferillinn.) Þarna er að koma upp kynslóð sem nýtir sér nýja samskiptatækni, veraldarvefinn, og kemur boðskap sínum á framfæri. Það er mikilvægt að styðja við lýðræðisbaráttu hvar sem hún á sér stað.

Varðandi beitingu vopnavalds er það mjög flókin spurning. Ég og minn flokkur höfum alltaf gagnrýnt beitingu vopnavalds og höfum aldrei litið svo á að hún leiði til friðsamlegrar lausnar. Ég kalla líka eftir því að vesturveldin spyrji sig: Hvers vegna er komið eins og er komið? Þessir einræðisherrar hafa verið undir verndarvæng vestrænna ríkja árum og áratugum saman, fengið frá þeim vopn til að nota á alþýðu sína. Það er grundvallarspurning sem (Forseti hringir.) við þurfum líka að takast á við, við á Íslandi eins og annars staðar, og þess vegna óskaði ég strax í gær eftir utandagskrárumræðu við hæstv. utanríkisráðherra um þetta mál og ég vona að hún geti orðið hið fyrsta. (Gripið fram í.)