139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fréttabréfi Þjóðmálastofnunar frá því í janúar sl. kemur m.a. fram að meðalskattbyrðin 2009 hafi verið svipuð og árið 2006 og lægri en allt tímabilið 1996–2005. (Gripið fram í: Það er brennivín.) Hækkunin á meðalskattbyrði dreifðist hins vegar mjög misjafnlega á milli tekjuhópa. Skattbyrði lækkaði hjá lægri og miðtekjuhópum árið 2009 en hækkaði hjá hærri tekjuhópum.

Árið 2009 var skattbyrði lágtekjufólks lægri en verið hafði næstu átta árin á undan. Af þessu má sjá að með skattahækkunum hefur verið stuðlað að jöfnuði í samfélaginu sem mér þykir ákaflega gott. Það er hins vegar spurning (Gripið fram í.) hvenær komið er að endamörkum, hvenær ekki verður lengur hægt að réttlæta hækkun á almennum sköttum í því umhverfi sem við búum við. Ég tel ljóst að við göngum ekki öllu lengra á því sviði.

Það er einnig spurning hvenær komið sé að endamörkum í niðurskurði á ríkisútgjöldum. Hvenær erum við búin að skera svo mikið niður að viðkvæmustu hópar samfélagsins bera þyngstu byrðarnar af kreppunni, hóparnir sem þurfa á mestri þjónustu velferðarkerfisins að halda? Þar þurfum við líka að stíga varlega til jarðar.

Ég tel hins vegar forgangsverkefni núna, í fjárlagagerðinni fyrir árið 2012, að nýta hagræðingartækifærin sem felast í sameiningu ráðuneyta og sameiningu stofnana og finna svipuðum verkefnum sameiginlegan farveg. Það er unnið að slíkri sameiningu og samlegðar- og hagræðingarmöguleikar eru miklir, t.d. í velferðarráðuneytinu, og það sjáum við á tilraunaverkefnum á þessu sviði sem sveitarfélögin hafa unnið. Ef okkur tekst þar vel til getum við bæði komist hjá miklum niðurskurði og skattahækkunum, en að eyða peningum framtíðarinnar tel ég (Forseti hringir.) ekki skynsamlegt.