139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur töluvert verið talað um krónuna sem er mjög merkileg umræða að mörgu leyti. En það er eins og menn gleymi því að það er hagstjórnin sem skiptir ekki síður máli og hagfræðingar hafa sagt, a.m.k. á fundum með þingmönnum, þar á meðal ráðgjafar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að gjaldmiðillinn sé ekki aðalmálið heldur hvernig haldið er um stjórnartaumana við hagstjórnina.

Síðan hlustum við á þingmenn bölva krónunni í sand og ösku, og menn geta haft alls konar skoðanir á því, en horfa fram hjá því að evran sem flestir tala um í þessum sal á í miklum vandræðum. Ég leyfi mér, frú forseti, að vitna í nokkrar greinar og sérfræðinga sem fjalla um evruna.

Sérfræðingar hjá Centre for Economics and Business Research segja ekki nema 20% líkur á að evran lifi. Þessir aðilar spá jafnvel öðru efnahagslegu hruni innan evruríkjanna á þessu ári, á sama árinu. (Gripið fram í.)

Forsætisráðherra Tékka segir að það væri algjört efnahagslegt glapræði fyrir Tékka að taka upp evru á þessum tímapunkti. (Gripið fram í.)

Evrópuþingmaðurinn fyrrverandi Jonas Sjöstedt segir að evran sé vandamál en ekki lausn í dag.

Í Sunday Telegraph skrifuðu 25 hagfræðingar grein um að evran væri í dauðateygjunum og mundi líklega ekki lifa nema fimm ár í viðbót. (Gripið fram í.)

The Economist segir að kostir við stórt myntsvæði séu ekki jafnmiklir fyrir smáþjóðir og oft hefur verið talið, evran virki nú eins og gildra fyrir ríki á borð við Írland. (Gripið fram í.)

Hvers vegna í ósköpunum tala menn hér sýknt og heilagt um þessa evru sem einhverja allsherjarlausn? Því setjast þingmenn ekki niður og ríkisstjórnin og beita sér fyrir því að hér fari fram alvöruumræða um gjaldmiðla yfirleitt? Hvaða gjaldmiðill hentar Íslandi? Er það krónan, er það evran, er það dollar eða eitthvað annað? (Gripið fram í.) Þessa umræðu vantar algjörlega því að svo virðist sem sérstaklega (Forseti hringir.) þingmenn Samfylkingarinnar séu blindir á Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Það kemst ekkert annað að. (Gripið fram í.)