139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

umræður um störf þingsins.

[14:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef áður nefnt þetta atriði í umræðum um fundarstjórn forseta, að skora á hæstv. forseta að gæta jafnræðis milli þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér höfum við séð það í dag að einhverra hluta vegna eru þingmenn stjórnarliðsins mjög illa fyrirkallaðir og það birtist í alls konar óróa og frammíköllum og látum. Þegar ég hélt mína stuttu ræðu áðan hélt hæstv. utanríkisráðherra samtímis ræðu úr sæti sínu. Þegar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talaði voru nokkrir fundir stjórnarliða hér í salnum. Og svo núna síðast þegar hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom á framfæri mikilvægum skilaboðum voru alls konar frammíköll og læti hér í salnum en hæstv. forseti gerði ekki neitt í málinu, sem væri í sjálfu sér ekki hægt að setja út á nema vegna þess hversu sláandi munurinn er á því annars vegar þegar stjórnarliðar tala og hins vegar þegar stjórnarandstæðingar halda ræðu, munurinn á því hversu miklum aga hæstv. forseti sér ástæðu til að halda uppi í salnum.