139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um þetta frumvarp um rannsóknarnefndir fór ég í gegnum athugasemdir mínar um málið. Þær vörðuðu fyrst og fremst áhyggjur mínar af réttarstöðu þeirra sem kæmu fyrir rannsóknarnefndina, umfang eða verkefni rannsóknarnefndanna, hvernig skipað væri í þær og hvernig gögnum yrði síðan skilað inn til þingsins aftur.

Ég sé að í nefndarálitinu er að einhverju leyti brugðist við þeim áhyggjum sem ég hafði þá fram að færa en ég tel samt þær breytingartillögur sem eru komnar fram ekki ganga nægilega langt.

Reynsla okkar af því að setja lög nýlega um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu gerir það að verkum að ég tel mjög mikilvægt að við vöndum okkur virkilega þegar við vinnum núna þetta mál um rannsóknarnefndir. Við erum að búa til ákveðna rammalöggjöf um verkefni sem við vitum að einhverju leyti hver verða á næstu mánuðum og ári en líka verkefni sem við vitum ekki hver verða. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að í þessari löggjöf verði ákveðinn sveigjanleiki til að takast á við þessi mismunandi verkefni og hef af því áhyggjur að hún geri það ekki miðað við þær tillögur sem eru núna komnar fram.

Ég ætla aðeins að byrja á því sem kemur fram í nefndarálitinu, þar er talað um þá miklu pólitísku sátt og þverpólitísku samstöðu sem náðist um skipun rannsóknarnefndar Alþingis. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að með því fyrirkomulagi sem verið er að leggja til sé hætta á því að það samkomulag muni ekki nást þegar rannsóknarnefndir verða skipaðar í framtíðinni. Það er einfaldlega talað um að við felum forseta Alþingis að skipa rannsóknarnefndina, einum þingmanni, virðulegi forseti. Ég held að vel hefði verið hægt að setja inn ákvæði um að þó að tillagan kæmi frá forseta Alþingis sem formanni forsætisnefndar þyrfti aukinn meiri hluta til að samþykkja skipun nefndarmanna, t.d. tvo þriðju hluta atkvæða. Það gæti verið minna en einhver aukinn meiri hluti þyrfti að styðja tillöguna um skipun nefndarmanna til að tryggja að það sé algerlega skýrt að það þurfi að ná pólitískri sátt og samstöðu innan þingsins um það hverjir taka sæti í sjálfstæðum rannsóknarnefndum.

Ég tek hins vegar undir mikilvægi þess að virkilega sé vandað til þeirra verkefna sem rannsóknarnefndum er falið að fást við. Við stöndum frammi fyrir ákveðnum vandkvæðum gagnvart þessum lögum. Alþingi hefur þegar samþykkt að fara í þrjár rannsóknir sem mundu að vissu leyti falla undir þessi lög um rannsóknarnefndir. Það er rannsókn á sparisjóðunum, ástæðunni fyrir þeim erfiðleikum sem íslenskir sparisjóðir lentu í, það er rannsókn á lífeyrissjóðunum og þeim erfiðleikum og því tapi sem þeir urðu fyrir í hruninu og það er rannsókn á þeim erfiðleikum sem bankahrunið olli Íbúðalánasjóði.

Nú liggja þegar fyrir þrjár ályktanir sem eru samþykktar af Alþingi Íslendinga um að fara eigi í rannsókn. Hins vegar segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Í tillögu til ályktunar um skipun rannsóknarnefndar skal kveðið á um hvað rannsaka á, hvernig haga skal rannsókninni og um fjölda nefndarmanna.“

Mig minnir að í tveimur fyrstu ályktununum sem ég nefndi sé ekki skilgreint nákvæmlega hvað eigi að rannsaka, það eru ein eða tvær setningar en hvorki talað um hvernig rannsókninni skuli hagað né tilgreindur fjöldi nefndarmanna sem eigi að taka að sér að sinna rannsókninni. Ég man ekki hvort það var tilgreint í tillögunni sem var samþykkt um Íbúðalánasjóð en mig minnir að fjöldi nefndarmanna hafi ekki verið tilgreindur. Við þessa löggjöf þyrfti að taka tillit til þess að þegar er búið að samþykkja ályktanir sem uppfylla ekki skilyrðin sem verið er að setja fram um skipun rannsóknarnefndarinnar. Alþingi þarf hér með að taka afstöðu til þess hvort við munum samþykkja aðrar ályktanir um sams konar rannsóknir eða hvort við förum í að setja sérlög um skipun þeirra rannsóknarnefnda og þau verkefni sem þær eigi að sinna.

Þá spyr maður líka hvernig verði um einmitt þessa löggjöf ef við verðum búin að samþykkja hana: Verður okkur þá heimilt að setja sérlög um skipun rannsóknarnefndar sem eru þá fyrir utan þessa almennu rammalöggjöf? Þyrfti þá að koma fram í lagatextanum hér að okkur sé heimilt að koma með sérlög eða er það eitthvað sem við megum og getum gert samkvæmt þeim leikreglum sem við störfum eftir?

Ég tel líka vanta meira svigrúm í þessa almennu löggjöf um meiri valdheimildir til handa nefndunum. Samkvæmt þessu frumvarpi mun fólk geta neitað að koma fyrir rannsóknarnefnd til að gefa skýrslu. Ég hefði talið að það ætti að koma því inn í lögin að það væri leyfilegt að krefjast þess af fólki að það kæmi fyrir nefndina og gæfi skýrslu, að því gefnu að það væri ekki beðið um upplýsingar um hugsanlega eitthvað glæpsamlegt hvað það sjálft varðar eða fólk því tengt. Þá væri í þessari ályktun Alþingis heimild fyrir nefndina til að krefja fólk um skýrslu í þeim tilfellum sem við teljum það mjög mikilvægt vegna þess að það væri lítið um gögn. Nefndarmenn þyrftu fyrst og fremst að treysta á munnlegan framburð og fengju heimild til að skikka fólk til að mæta fyrir nefndina. Í þeim tilvikum sem við mætum það svo að það væri mjög mikið um fyrirliggjandi gögn mundi viðkomandi rannsóknarnefnd ekki fá þessa valdheimild.

Í lögunum um rannsóknarnefnd Alþingis eru mjög skýr ákvæði um mjög miklar valdheimildir til að kalla eftir gögnum, fara í húsleitir til að afla gagna og krefjast þess að fólk mæti fyrir nefndina og gefi skýrslu. Þar er talað um að rannsóknarnefndin geti kallað einstaklinga til skýrslugjafar og skulu þeir sem gefa skýrslu segja satt og rétt frá fyrir nefndinni. Einnig kemur þar fram að einstaklingur getur skorast undan því að svara spurningum ef ætla má að í svari hans geti falist játning eða bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Sama á við ef ætla má að svar hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern þann sem tengist viðkomandi með þeim hætti sem talað er um í 1. og 2. mgr. 117. gr. laga um meðferð sakamála. Þar er einnig tekið á því að ýmis ákvæði í sérlögum varða þagnarskyldu opinberra starfsmanna, eins og við í viðskiptanefnd höfum orðið áþreifanlega vör við. Þegar við förum fram á að rannsóknarnefndin rannsaki t.d. mál sem varðar starfsemi Seðlabankans er mjög skýrt í lögum um Seðlabankann að starfsmenn hans geti hreinlega ekki veitt viðkomandi aðilum upplýsingar nema það sé skýrt tekið fram í lögum um rannsóknarnefnd að hægt sé að víkja þagnarskyldunni til hliðar. Ég tel mjög mikilvægt að nefndin skoði þetta. Í lögum um rannsóknarnefnd Alþingis var einmitt tekið sérstaklega á þessu þannig að þó að fólk væri háð þagnarskyldu samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðum ríkisstjórnar og ráðherrafunda sem og fundargerðum nefnda Alþingis var heimilt að nálgast þessar upplýsingar. Sama gilti um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki. Í starfsemi hins opinbera, og náttúrlega hjá einkafyrirtækjum líka, eru oft ríkar kröfur um þagnarskyldu og þá þarf að taka á því í þessari almennu rammalöggjöf hvaða heimildir við teljum að rannsóknarnefndin þurfi að hafa til að geta sinnt verkefnum sínum.

Það hlýtur að vera lykilatriði að við fáum fram þær upplýsingar sem við erum að leitast eftir með því að skipa rannsóknarnefndina. Annars getum við bara sleppt því að skipa hana og sparað okkur peninginn.

Þá ætla ég aðeins að koma inn á tæknileg atriði. Í lögum um rannsóknarnefnd Alþingis er tekið sérstaklega á kostnaðarhliðinni við starfsemi rannsóknarnefnda. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé einhvern veginn gefið að settur sé inn sérstakur fjárlagaliður þannig að ekki sé hægt að skipa rannsóknarnefndir fyrr en við erum búin að samþykkja fjárlög eða hvort það ætti að vera ákvæði í þessum lögum um að forsætisnefnd hafi heimild til að ákveða þau kjör sem viðkomandi starfsmenn rannsóknarnefndarinnar eiga að fá eins og kom fram í lögum um rannsóknarnefnd Alþingis.

Það fór aðeins fram umræða í andsvörum við hv. þm. Atla Gíslason og Álfheiði Ingadóttur um hver eigi að fjalla um þessar þingsályktunartillögur og leggja þær fram þegar við ætlum að fara í rannsókn og síðan hvert skýrslurnar eigi að fara. Þau vandkvæði sem við stöndum frammi fyrir eru að við erum að vissu leyti að búa til ramma um starfsemi rannsóknarnefnda sem grundvallast á hugmyndum í frumvarpi sem forseti Alþingis hefur kynnt um breytt þingsköp. Ég hef velt þessu töluvert fyrir mér líka og ég geri t.d. ekki athugasemd við það að allsherjarnefnd hafi það verkefni að móta framtíðarþingsályktunartillögu þar til búið verði að skipa þessa eftirlits- og stjórnskipunarnefnd. Ég velti hins vegar upp þeirri hugmynd að þegar rannsóknarnefnd er síðan búin að skila af sér skili hún til forseta Alþingis. Forseti Alþingis er formaður forsætisnefndar og forsætisnefnd á að taka ákvörðun í framhaldinu um það til hvaða nefndar skýrsla rannsóknarnefndarinnar fari. Við þurftum að gera breytingar á lögum um rannsóknarnefnd Alþingis og þá kom inn ákvæði um að setja þeirri nefnd tímamörk. Það kæmi þá annaðhvort fram í þingsályktunartillögunni sjálfri eða forsætisnefnd og mundi segja til um að sú nefnd ætti að lokum að skila tillögum að viðbrögðum Alþingis. Það þarf þá að setja einhver ákveðin tímamörk um það hvenær sú nefnd á að skila af sér þannig að við vitum alltaf hver á að sinna verkefninu, hver ber ábyrgð á því og hverju viðkomandi á að skila af sér.

Þetta er ein helsta ástæðan fyrir því að ég taldi nauðsynlegt að leggja fram frumvarp til laga um rannsókn á sparisjóðunum sem var dreift á Alþingi í gær. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir. Þrátt fyrir að hér yrði samþykktur þessi lagarammi — og ég bar það frumvarp mjög náið saman við þetta frumvarp til laga um rannsóknarnefndir — voru helstu ágallarnir sem ég horfði til þeir að við værum í einkennilegri aðstöðu upp á það hvernig við ætlum að tækla þær rannsóknir sem ég tel mest áríðandi fyrir okkur á næstu missirum, þ.e. rannsóknir á starfsemi sparisjóðanna og starfsemi lífeyrissjóðanna. Ég vona svo sannarlega að þótt ég hafi ekki fengið að mæla enn þá fyrir því máli hér, að sjálfsögðu ekki því að það tekur aðeins lengri tíma en sólarhring að fá að mæla fyrir málum hér, skoði allsherjarnefnd það frumvarp og velti fyrir sér til hverra þeirra greina sem koma þar fram væri að einhverju leyti hægt að taka tillit í þeirri rammalöggjöf sem við erum að búa til um rannsóknarnefndir. Þegar við tæklum það síðan gætum við þurft að setja sérlög um þessar þingsályktunartillögur eða gætum einhvern veginn fengið þær til að passa inn í þetta frumvarp um rannsóknarnefndir með því að skoða þá verklýsingu og þá verkferla sem eru lagðir þar til.

Ég held að við viljum nefnilega öll vanda okkur við þetta og það er mjög mikilvægt að við pössum okkur vel. Eins og ég hef nefnt áður í ræðustól held ég að lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu séu víti til varnaðar. Við þurfum aðeins að passa okkur áður en við förum út í svona rammalöggjöf um framtíðarverkefni og reyna að dýpka svolítið umræðuna þannig að þetta sé ekki eitthvert verkefni sem við bara reynum að klára heldur að við veltum virkilega vel fyrir okkur í hvaða stöðu við erum í dag og í hvaða stöðu við gætum verið eftir eitt ár. Þetta á að vera löggjöf sem vonandi lifir okkur sem sitjum nú á Alþingi.