139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi máls míns segja að ýmis atriði í ræðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur eru tilefni til að skoða nánar. Ég held að það sé alveg þess virði að ræða þau atriði frekar í allsherjarnefnd þannig að við ljúkum ekki meðferð þessa máls í þinginu öðruvísi en að hafa leitt til lykta þær vangaveltur, og fyrir mitt leyti mundi ég styðja að alla vega þessi sjónarmið yrðu tekin til skoðunar aftur. Sum af þeim hafa reyndar verið rædd en það má skoða þau betur. Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði er auðvitað ætlunin með þessari löggjöf að setja almenna löggjöf, rammalöggjöf sem á standa til lengri tíma, skulum við segja, og á að geta þjónað okkur undir mismunandi kringumstæðum. Og þó að meðferð málsins taki hugsanlega við það einhverjum dögum lengri tíma í þinginu er það vel þess virði ef við getum leitt til lykta álitamál á þeim tíma bæði til að meiri sátt sé um málið og eins til að ekki séu einhver atriði óskýr eða óljós þegar við ljúkum þessu verki.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, framsögumanns allsherjarnefndar í málinu, að um þetta mál hefur verið prýðileg sátt á vettvangi allsherjarnefndar. Það hefur fengið talsverða umræðu þar en auðvitað ber líka að horfa til þess að málið var rætt ítarlega á fyrri stigum og frumvarpið var í rauninni samið á ábyrgð forsætisnefndar en með víðtæku samráði innan þingsins. Það er því búið að skoða og velta upp mjög mörgum álitamálum sem upp geta komið í þessu sambandi.

Eins og rakið hefur verið liggja rætur þessa máls lengra aftur. Það má rekja þetta að stórum hluta til skýrslu nefndar um eftirlitshlutverk Alþingis sem Bryndís Hlöðversdóttir var formaður fyrir og skilaði þeirri skýrslu árið 2009 eftir eins eða tveggja ára starf. Málið kom líka til skoðunar í sambandi við störf þingmannanefndarinnar á síðasta ári og svo er auðvitað rétt að geta þess að ýmsir þingmenn hafa á umliðnum árum og lengra aftur en ég man í þinginu reifað sjónarmið um að þörf væri á að setja almenna löggjöf um rannsóknarnefndir. Menn hafa gert sér grein fyrir því að það væri ekki endilega heppilegt ef semja þyrfti sérstaka löggjöf í hvert skipti sem tilefni væri til að setja á fót einhvers konar rannsóknarnefnd. Slíkar rannsóknarnefndir hafa reyndar verið nokkrar á síðustu árum. Við minnumst nefndarinnar um aðbúnað á vistheimilum á fyrri árum og áratugum og eins rannsóknarnefndar sem hafði það hlutverk að skoða hleranir hér fyrir nokkrum árum og fleiri nefnda af því tagi, svo ekki sé minnst á rannsóknarnefndina vegna bankahrunsins sem er auðvitað stærsta og viðamesta rannsóknin sem sett hefur verið af stað af þessu tagi. En hvað um það.

Náðst hefur tiltölulega víðtæk og góð samstaða um þann grundvöll sem frumvarpið byggir á, þarna er almennur lagarammi sem á að gilda þegar Alþingi ákveður að ráðast í sérstakar rannsóknir samkvæmt þeim skilyrðum sem greind eru í frumvarpstextanum. Það er jákvætt. Auðvitað má velta áfram fyrir sér t.d. þeim atriðum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vakti máls á áðan um verkaskiptingu nefnda þingsins í þessu samhengi. Ég hef verið þeirrar skoðunar að rétt væri að ein nefnd þingsins bæri ábyrgð á þinglegri meðferð þeirra mála sem undir þetta frumvarp heyra en það breytir ekki því að frumkvæði að flutningi slíkra þingmála, þingsályktunartillagna eftir atvikum, getur auðvitað komið frá öðrum þingnefndum eða þingmönnum í öðrum þingnefndum sem hafa verið að skoða málasvið sem undir þær nefndir heyra. Þegar þingmálið hefur verið flutt þarf það hins vegar að fara í ákveðna þinglega meðferð. Sú þinglega meðferð lýtur eftir því sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir fyrst og fremst að forminu, ekki innihaldinu. Það er ekki markmiðið með hinni þinglegu meðferð að leiða fram staðreyndir eða sjónarmið sem varða rannsóknarviðfangsefnið sjálft heldur fyrst og fremst umgjörðina. Ég hef verið sammála því sjónarmiði sem frumvarpið byggir á og kemur fram í áliti allsherjarnefndar að það sé heppilegast að það verkefni sé hjá einni nefnd þingsins jafnvel þó, eins og ég segi aftur, að frumkvæði að flutningi mála af þessu tagi komi frá öðrum þingnefndum, fagnefndum þingsins eða málefnanefndum þingsins, ef við getum orðað það svo.

Á hinn bóginn er alveg athugunarefni, af því að þetta snertir auðvitað þingskapafrumvarpið sem hefur gengið á milli manna hér og er í undirbúningi og flestir gera ráð fyrir að verði flutt innan skamms, og auðvitað álitamál í því samhengi hvert nákvæmlega eigi að vera verkefni og verkaskipting milli stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarinnar annars vegar og fagnefndanna hins vegar. Ég sé þá skörun kannski frekar varðandi uppruna málanna eða tilurð þeirra frekar en þinglega meðferð þegar tillaga er komin fram um að ráðast skuli í tiltekna rannsókn og er allt í lagi að taka þá umræðu. En ég held að það snerti kannski meira efni þingskapalöggjafarinnar eða -frumvarpsins frekar en efni þessa frumvarps því að ég held, ef við tökum dæmi, að jafnvel þótt heilbrigðisnefnd Alþingis eða sú nefnd sem mun taka við hlutverki þeirrar nefndar þegar þingsköpum hefur verið breytt, og ef þeim verður breytt, geti eða meiri hluti heilbrigðisnefndar eða einstakir meðlimir í heilbrigðisnefnd lagt fram þingmál um að segjum stjórnsýsla landlæknisembættisins eða Sjúkratrygginga eða heilbrigðisráðuneytisins sjálfs sé tekin til rannsóknar. Slík tillaga kæmi þá fram á þingi, fengi umræðu í þingsal og færi til nefndar sem væri þá þessi eftirlitsnefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samkvæmt þessu frumvarpi, og hún mundi meta hvort tillagan sem slík uppfyllti hin formlegu skilyrði fyrir því að fara í slíka rannsókn en hún mundi ekki fjalla um viðfangsefni rannsóknarinnar sem slíks, þ.e. hún mundi ekki afla upplýsinga innan úr heilbrigðiskerfinu um einstaka þætti málsins eða málsatvik að öðru leyti heldur bara fjalla um formið, hvort rannsóknin ætti að fara fram út frá hinum formlegu mælikvörðum. Ég get vel séð það fyrir mér.

Ég held hins vegar að full ástæða sé til að velta fyrir sér verkaskiptingu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarinnar annars vegar og einstakra fagnefnda hins vegar þegar kemur að því að móta þingskapalögin samkvæmt þeim tillögum sem eru á leiðinni inn í þingið og flestir þingmenn þekkja. Þetta vildi ég segja um það atriði. Hins vegar vekur verkaskipting þingnefnda samkvæmt því frumvarpi ýmsar fleiri spurningar sem eðlilegt er að taka til umræðu þegar þar að kemur.

Það eru í sjálfu sér ekki fleiri atriði sem ég ætlaði að nefna í þessari stuttu ræðu. Hins vegar eru sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur áðan og vörðuðu auknar heimildir þeirra rannsóknarnefnda sem skipaðar verða á grundvelli þessara laga, nái þau fram að ganga, atriði sem hafa töluvert verið rædd á vettvangi allsherjarnefndar og orka auðvitað tvímælis vegna þess að um leið og mikilvægt er að rannsóknarnefndir af þessu tagi hafi víðtækar heimildir er líka rétt að taka tillit til annarra hagsmuna eins og geta komið upp og vikið er að í frumvarpstextanum. Þar er um að ræða undantekningar. Almennt eru heimildirnar víðtækar en svo eru ákveðnar heimildir sem þrengja þær, og ég vil segja að almennt séð sýnist mér að í frumvarpinu eins og það lítur út núna sé jafnvægis milli mismunandi sjónarmiða í þessu sambandi nokkuð vel gætt. Ég vil minna á í þessu sambandi að hér er að sjálfsögðu ekki um rannsóknir að ræða sem að öllu leyti má jafna til sakamálarannsókna. Ef um er að ræða rökstuddan grun um refsivert athæfi eiga mál ekki heima í þessum farvegi heldur í þeim farvegi sem réttarkerfi okkar, sakamálaréttarfar gerir ráð fyrir að sé notað og á því stigi er auðvitað um að ræða víðtækari heimildir en hér er að finna. Við verðum að hafa það í huga þegar á þetta er litið.

Við verðum líka að hafa í huga að þó að rannsóknarnefndir á grundvelli þessara laga muni kannski ekki geta sannað allt eða leitt til lykta spurningar um hugsanlega refsiverða háttsemi getur vinna slíkra rannsóknarnefnda orðið tilefni til þess að farið sé í rannsókn á grundvelli sakamálaréttarfarsins. Ef einhverjar upplýsingar eru fyrir hendi og ef einhver sjónarmið, eða það eru nú fyrst og fremst upplýsingar sem málið snýst um, hafa ekki að fullu fengist með þeim heimildum sem rannsóknarnefndirnar sjálfar hafa á að vera hægt að knýja þær fram á grundvelli sakamálaréttarfarsins gangi mál svo langt. Til þess þarf að vera kominn fram grunur um refsivert athæfi og það er alveg rétt að við höfum það í huga að það er auðvitað ákveðin hugsun í því í réttarfari okkar að það þurfi að vera rökstuddur grunur um refsivert athæfi til að opinberir rannsóknaraðilar fái þær víðtæku heimildir sem sakamálaréttarfarið gerir ráð fyrir. Ég ætlaði ekki að koma nánar inn á þau atriði í þessari umræðu en ég tel ekki óeðlilegt að þau sjónarmið sem hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson og Eygló Harðardóttir hafa vikið að hér í umræðunni verði tekin til nánari skoðunar í allsherjarnefnd. Ég kann að vera sammála sumu en ekki öllu sem þau hafa sagt um þetta.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég hins vegar segja í ljósi ummæla hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, sem í raun lagði til að í stað þess bráðabirgðafyrirkomulags að rannsóknarmálum af þessu tagi yrði fyrirkomið hjá allsherjarnefnd tímabundið yrði gerð sú breyting ein á þingsköpunum núna að sett yrði á fót eftirlitsnefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eins og tillaga er um í þingsköpunum, að ég held að heppilegra sé að sjá hvað verður úr þingskapaumræðunni og þingskapabreytingunum áður en farið er að grípa til þeirra ráðstafana. Ég bendi á að allsherjarnefnd hefur þegar fengið í sínar hendur ýmis mál sem varða rannsóknir af þessu tagi og ég held að ef við gerum ráð fyrir því að frumvarp um breytingar á þingsköpum komi fram á næstunni, eins og sagt er hér í umræðum, sé eðlilegra að sjá hvaða afdrif það mál fær áður en eitt atriði úr því frumvarpi er tekið út úr og afgreitt sérstaklega. Það er í ágætu samræmi við hlutverk allsherjarnefndar að hafa þetta hlutverk sem hér er gert ráð fyrir með höndum tímabundið þangað til niðurstaða í því máli liggur fyrir.