139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir hans ræðu. Hann ræddi mál sem ég tók upp áðan, í andsvari við hv. þm. Atla Gíslason, þar sem ég velti upp því sjónarmiði að skynsamlegra væri að fagnefnd gæti klárað málið, ef þannig má að orði komast, og sett af stað rannsókn eftir þessum lögum í stað þess að hafa það í sérnefnd.

Hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir sín sjónarmið í því og túlkaði það á þann veg að skynsamlegt væri að hv. allsherjarnefnd héldi utan um slík mál að forminu til og ljúki þannig málum sem væru þá til rannsóknar að frumkvæði fagnefnda. Ég held að þessi túlkun komi til móts við þau sjónarmið sem ég hef haft uppi, sem er einfaldlega það að ég hef áhyggjur af því að það vanti upp á þekkingu á þeim málum sem þurfi að skoða betur ef þau eru bara hjá einni nefnd.

Ég vil þó velta því upp með hv. þingmanni hvort það sé þá nógu skýrt í lagafrumvarpinu að þannig sé málum fyrir komið, hvort það sé nógu ljóst. Kannski hv. þm. Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, komi inn í þessa umræðu á eftir en mér fannst þetta ekki endilega vera hans sjónarmið í þessu. En eins og ég skil hv. þm. Birgi Ármannsson metur hann það svo að það skipti máli að frumkvæðið komi frá faglegu nefndunum þar sem þekkingin er og þar sem menn sjá brotalamirnar og hvað þurfi að skoða sérstaklega. Síðan er það í þessu tilfelli hv. allsherjarnefnd sem klárar málið og kemur því í þann formlega búning sem nauðsynlegt er. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þm. Birgi Ármannsson hvort hann telji að þetta sé nógu skýrt í frumvarpinu.