139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel skynsamlegt að vinna eftir þeim málshætti að í upphafi skuli endirinn skoða. Ég held að það væri afskaplega mikilvægt að hv. allsherjarnefnd færi einmitt yfir þennan þátt. Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti nefnilega réttilega á eru menn í raun með tvö þingmál undir. Síðan eru menn með frumvarp sem ekki er búið að leggja fram í þinginu en hefur verið að velkjast á milli þingmanna þar sem hugmyndin er, að erlendri fyrirmynd, að hafa eina stjórnskipulega eftirlitsnefnd. Í kynningu á málinu má alveg meta það á þann veg að það væri í raun eina nefndin sem ætti að halda utan um þennan þátt málsins, þ.e. að vera bæði með frumkvæðið og ljúka málinu formlega — þrátt fyrir að sú nefnd fengi auðvitað, eins og allar aðrar, ábendingar úr ýmsum áttum. Það gildir einu hvaða nefnd ætti í hlut, allsherjarnefnd eða einhver önnur, það er fullmikið að eiga að vera með allt þjóðfélagið undir og vega það og meta hvort rannsaka eigi ákveðna þætti eða ekki. Hv. þingmenn mættu vera ansi vel að sér og vel með á nótunum og þyrftu að geta lesið hluti hratt og sett sig inn í málin, enn hraðar en hv. þingmenn þurfa að gera í dag, ef þeir ættu að ná yfir það með góðu móti.

Ég hvet því hv. þingnefnd, og ég heyri að hv. þm. Birgir Ármannsson er sammála því, til að fara betur yfir þennan þátt málsins. Við þurfum að vita hvernig við viljum hafa þessa hluti áður en við samþykkjum umrætt frumvarp.