139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og oft gerist þegar við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson eigum samtöl þá færumst við nær og eigum meira sameiginlegt í lok samtalsins en í upphafi þess. Til þess eru nú góðar samræður, hvort sem þær eiga sér stað í þingsal eða annars staðar. Til að það sé á hreinu af minni hálfu held ég að full ástæða sé til að taka þetta tiltekna álitamál fyrir og skoða það betur í allsherjarnefnd, bara að við veltum því upp í umræðunni hvernig við viljum hafa fyrirkomulagið á þessu.

Ég er líka sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um það að þeir sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, nái þingskapabreytingin fram að ganga, eða í allsherjarnefnd eins og þetta frumvarp lítur út núna, geti ekki verið sérfræðingar á öllum sviðum sem máli skipta í þessu sambandi. Það er hins vegar mikilvægt að þeir sem sitja í þeirri nefnd eða fást við það viðfangsefni sérhæfi sig svolítið í forminu, þ.e. umgjörðinni, mati á því hvenær skilyrðum þess er fullnægt að fara út í rannsókn af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir — og þá er ég að tala um formleg skilyrði — en frumkvæði að rannsóknum sem varða málefnasviðin sjálf, hvort sem það eru viðskiptamálefni, heilbrigðismálefni, umhverfismálefni, orkumálefni eða hvað svo sem það gæti verið, komi frá þeim sérnefndum sem um slík mál fjalla eða þeim þingmönnum sem sérstakan áhuga hafa á þeim eða sérstaka þekkingu. Svo er þessi eftirlitsnefnd sá vettvangur sem er notaður til að samræma formhliðina.