139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist umræðan vera góð og málefnaleg. Það er alveg ljóst að mikil samstaða er um málið þannig að við getum alveg bókað að það kemst ekki í neinar fréttir. Það er nokkuð ljóst.

Ég held að við séum öll sammála um að við viljum hafa skilvirkara tæki en við höfum haft hingað til til að rannsaka hluti. Formið á því þarf að vera skýrt allra hluta vegna, m.a. vegna hagsmuna þeirra sem eru rannsakaðir. Það skiptir máli að menn líti ekki svo á að það hljóti að vera eitthvað stórkostlega mikið að ef menn vilja skoða hlutina. Það er mjög mikilvægt að skoða mál með gagnrýnu hugarfari til þess að taka á þeim og vísa því áleiðis ef um refsivert athæfi er að ræða, en kannski fyrst og fremst til að læra af mistökum. Okkur mun ekkert miða áfram sem þjóð eða einstaklingum ef við lærum ekki af mistökum. Við þurfum að þekkja þau og vita hvaða afleiðingar þau hafa haft.

Ég held hins vegar að það vanti svolítið upp á að menn nái utan um hvernig þetta verður í framkvæmd, eins og komið hefur fram í umræðunni. Hv. þm. Birgir Ármannsson benti réttilega á það áðan að menn væru í raun með tvennt undir, annars vegar frumvarpsdrög milli þingmanna og þingflokka sem ekki eru enn orðin að frumvarpi og hins vegar þetta mál.

Í frumvarpsdrögum þeim sem þvælast hér á milli og lúta að breyttum þingsköpum er stefnt að því að það verði að lögum að skipuð verði ný fastanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hún mundi hafa eftirlit með hinum ýmsu þáttum sem gert er grein fyrir í frumvarpsdrögunum.

Ég nefndi áðan að frumvarpsdrögin taka mið af öðrum aðstæðum, þ.e. miklu stærri þjóðþingum en hér er, með fleira starfsfólki og þingmönnum. Ég hef af því sérstakar áhyggjur ef við förum þá leið og túlkum málið ekki eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gerði heldur með einhverjum öðrum hætti að við nýtum það ekki eins og við viljum. Ég held að allir séu sammála um markmiðið.

Til að fara praktískt í málið þá sit ég í hv. viðskiptanefnd. Þar er mjög margt undir. Ég hefði sérstaklega viljað skoða betur það sem snýr að einkavæðingu fyrirtækja hjá Landsbankanum, ríkisbankanum, svo dæmi sé tekið. Ég hefði líka sérstaklega viljað skoða hvað gerðist eftir hrunið í bönkunum og fram að þeim tíma sem svokölluð eftirlitsnefnd tók til starfa — mér sýnist að við hefðum mátt vanda okkur meira þegar við skilgreindum hlutverk hennar. Ég hefði í það minnsta viljað skoða það eins og hálfs árs tímabil sem ekkert hefur verið skoðað. Það má líka færa rök fyrir því að eftirlitið sé ekki mikið núna. Nú tala ég um praktísk mál.

Við eigum eftir að vinna þó nokkuð mikið til að komast almennilega til botns í málinu. Þó erum við búin að leggja mikið á okkur í nefndinni í tæplega tvö ár við að skoða það.

Ef ein nefnd, sama hvað hún heitir, ætti að fara í málið algjörlega frá A til Ö og síðan í umhverfismál og öll önnur mál segir það sig sjálft að þá færðust menn mjög mikið í fang. Það er ekki nóg að fá ábendingar frá viðkomandi fagnefnd, hún verður að vera búin að vinna ákveðna grunnvinnu í það minnsta. Helst vildi ég sjá það sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi, að unnin væri frumvinna í fagnefndinni en þegar kæmi að forminu, þegar uppfylla ætti þau skilyrði sem uppfylla þyrfti í lögunum, sæi þingnefnd, hv. allsherjarnefnd eða einhver önnur, um það. Það held ég að sé skynsamlegt verklag.

Við skulum ekki gleyma því að við höfum oft gert mistök með því að hugsa ekki um verklagið. Það á við um hv. Alþingi og ýmsa aðra staði, sérstaklega varðandi eftirlit. Ég ætla ekki að fara í fjármálamarkaðinn en það er augljóslega eitthvað að eftirlitinu. Ég ræddi það við ágætan mann í hádeginu að það hlyti að vera eitthvað að verklaginu þegar hér féllu dómar hver á fætur öðrum um að gengislánin væru ólögleg. Það er eitthvað að verklaginu í fjármálastofnunum og hjá Fjármálaeftirlitinu þegar það er niðurstaða dómstóla að allir samningar séu kolólöglegir þrátt fyrir að hundrað lögfræðingar, alla vega einhverjir tugir, hafi farið í gegnum samningana. Það er eitthvað bjagað hér.

Ég hef áhyggjur af því að ef við skýrum það ekki, ef hv. allsherjarnefnd og þingheimur eru ekki búin að sjá fyrir sér hvernig þau vilja hafa fyrirkomulagið, komum við upp einhverju sem við getum kallað falskt öryggi, tæki sem nýtist ekki eins og skyldi. Ég hef ekki heyrt neinn málefnalegan ágreining í þingsalnum í þessari umræðu um hvert menn vilja stefna og hvað menn vilja sjá. Í það minnsta er það ekki stórt ef það er til staðar.

Ég sit líka í hv. heilbrigðisnefnd. Þar liggur fyrir mál sem við munum ræða rétt á eftir þar sem ekki hefur verið stunduð góð stjórnsýsla, þ.e. sameining landlæknisembættisins og Lýðheilsustofnunar. Það er mál sem hv. þingmenn í heilbrigðisnefnd þekkja ágætlega en er mjög ólíkt þeim málum sem ég nefndi úr hv. viðskiptanefnd. Ég nefni hér nokkuð sem er á döfinni í dag. Ég held að það væri erfitt fyrir hvaða þingnefnd sem er bara að þurfa að skoða þau mál sem ég nefndi — ég nefndi þrjú mál af handahófi — ef menn þyrftu að vinna málin algjörlega frá grunni.

Það væri ekki góður bragur á því neins staðar, sérstaklega ekki í jafnmikilvægu máli og rannsóknarnefndarfrumvarpinu, ef menn ynnu það ekki frá grunni. Frá því kjörtímabilið hófst og fram á þennan dag, í það minnsta frá því að ég kom á þing — og er nú ekkert búinn að vera hér í 100 ár — hef ég aldrei upplifað að menn hafi unnið mál með jafnmiklum hraða og jafnilla og gert hefur verið. Má nefna fjölmörg dæmi þar um. Mér er alltaf minnisstæð umræðan og vinnan við lög um sparisjóðina sem voru drifin í gegn með miklu hraði. Við erum enn þá að vinna okkur út úr því. Við þurfum að láta af þeim ósið. Í dag ættum við að klára í það minnsta umræðu um eitt mál sem er reyndar illa unnið, þ.e. sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Þar er að baki slæm stjórnsýsla en ég tel að það sé mjög mikilvægt að hv. allsherjarnefnd fari vel yfir málið á milli umræðna.

Það kæmi verulega á óvart, af því ég hlustaði bæði á hv. þm. Atla Gíslason og hv. þm. Birgi Ármannsson, ef þeir og aðrir hv. þingmenn í allsherjarnefnd settust yfir málið og kæmust ekki að einhverri niðurstöðu þar sem við velktumst ekki í vafa um hvert við ætluðum með það. Ég treysti þessum hv. þingmönnum vel til þess að klára málið að því gefnu að þeir gefi sér tíma til þess að fara vel yfir það. Það er til lítils að ganga frá frumvarpi og gera það að lögum ef við þurfum síðan að endurskoða það eftir einhver ár af því að það hefur ekki virkað eins og að var stefnt.

Það er mjög mikil þörf á því að þingið hafi tæki til að skoða hluti betur en nú er. Við þurfum að taka til allra þátta, taka mið af þeim aðstæðum sem við búum við, m.a. því að við erum 63 hv. þingmenn. Við erum með þingnefndir sem sérhæfa sig í hverju máli fyrir sig. Mér fundust það góð rök hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að hér værum við þá að skipa í allsherjarnefnd til þess að menn gætu sérhæft sig í forminu. Það skiptir auðvitað máli, ég geri ekki lítið úr því.

Þó að ég hafi talað vel um hv. þingmenn í allsherjarnefnd ætla ég ekki að halda því fram að þeir séu ofurmenni, ég held að þeir séu bara eins og eðlilegt fólk að því leytinu að þeir þurfa tíma til að setja sig inn í mál. Það er fullkomlega útilokað fyrir þá að taka landið og miðin undir, það verður að dreifa því á fleiri hv. þingmenn.