139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Hv. þingmaður sagði í lokaorðum sínum að hún væri tilbúin að svara spurningum.

Mér fannst eitt vanta í nefndarálit meiri hlutans og það er atriði sem ég gagnrýndi mjög þegar frumvarpið var lagt fram í nóvember, þ.e. það sem snýr að húsnæðismálum. Það kemur fram í frumvarpinu að ekki hafi fengist niðurstaða í viðræður við eigendur Heilsuverndarstöðvarinnar. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann: Er komin niðurstaða í þær viðræður og liggur fyrir hvort farin verður sú leið, sem ég kalla bruðl, af hálfu heilbrigðisráðuneytisins að leigja húsnæði sem kostar 41% meira en talið er að þurfi að gera? Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hvort hv. þingmaður geti upplýst mig um það og þá kannski hvort búið sé að endurleigja húsnæðið sem landlæknisembættið er með á Seltjarnarnesi.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að bara vegna aukins húsnæðiskostnaðar þurfi að skerða þjónustuna um 2% aukalega, og þá sé ekki tekið tillit til hugsanlega leigugjalds af því húsnæði sem er núna þar sem eftir eru 17 ár af samningi, að það sé ekki tekið inn í. Mér finnst þetta vera algjört bruðl á peningum og leyndi því ekki í umræðunni hér.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort það hafi eitthvað verið rætt í nefndinni að hugsanlega mætti nýta húsnæðið áfram eins og það er. Á þeirri tækniöld sem við lifum í dag skil ég ekki af hverju hafa þarf alla starfsmenn í sama húsi, enda er það ekki svo hjá mörgum öðrum stofnunum. Hefur það verið skoðað sérstaklega vegna þess að þetta er aukakostnaður upp á um 40 millj. kr., bæði flutningur um 30 millj. kr. og aukaleiga um 12 millj. kr. Mín skoðun er sú og hefur alla tíð verið að við eigum frekar að greiða starfsfólkinu laun og halda því í störfum í heilbrigðisþjónustunni heldur en að eyða peningum í óþarfa, í eitthvert bruðl í húsnæðismálum.