139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að margt er bruðlið í húsnæðismálum. Ég veit ekki hvort má telja það bruðl ef stofnanirnar tvær hafa sýnt fram á að það sé þörf á þeim fermetrafjölda sem þeim er ætlaður í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar með tilliti til þróunar í starfi þessarar stofnunar og munar það nú ekki miklu.

Það sem er alvarlegt í þessu og maður stoppar auðvitað við er leigusamningurinn sem var gerður um núverandi húsnæði landlæknisembættisins, að hann skuli vera bundinn svona lengi, til 25 ára, óuppsegjanlegur á háu leiguverði. Ég veit ekki hvernig stjórnsýsla það var sem setti í raun og veru embættið niður með þannig leigusamning sem ekki var hægt að segja upp. Var ekki hugsað til þess að einhvern tíma yrði breyting á starfsemi landlæknisembættisins, að það yrði bara niðurnjörvað í því húsnæði sem því var komið fyrir?

Ég vona og það gera náttúrlega allir að hægt sé að endurskoða þennan leigusamning, að segja honum upp eða að leigja annarri stofnun sem húsnæðið hentar betur. En mér finnst það fyrst og fremst vítavert að leigusamningar af því tagi sem gerðir voru á þeim árum sem landlæknisembættið fór inn í sitt húsnæði skyldu hafa verið gerðir og þetta er ekki sá eini. Það eru fleiri stofnanir bundnar af óuppsegjanlegum samningum, rándýrum, sem hafa áhrif á starfsemi þeirra.