139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að skoða þurfi einhverja leigusamninga sem gerðir voru fyrir sjö eða tíu árum. Ég var reyndar ekki að spyrja um það, ég var bara að spyrja: Hvernig stendur á því að menn eru tilbúnir að eyða núna 12 millj. kr. á ári aukalega í kostnað við leiguhúsnæði sem Framkvæmdasýslan er þegar búin að gera úttekt á að þurfi að gera? Mín skoðun er sú að það eigi að sjálfsögðu að nota þessa peninga í heilbrigðiskerfinu. Það er verið að segja upp fólki úti á landsbyggðinni og um allt land, kvennastörf, og það er alveg furðulegt þegar menn tala um kynjaða fjárlagagerð að það birtist þá í því að taka stærra og dýrara húsnæði á leigu. Hvers konar endemis vitleysa er þetta eiginlega? Þetta er bara algjör vitleysa.

Ég hélt að sá tími væri liðinn að menn gætu bruðlað svona með peninga umfram það sem er talin þörf á. Það er miklu skynsamlegra að nýta peningana til að efla heilbrigðisþjónustuna í staðinn fyrir að gera enn þá leigusamninga í þá átt sem við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um að eigi ekki að gera. Mér finnst líka mjög sérkennilegt að ekki sé hægt að skoða það að hafa þessar stofnanir á tveimur stöðum í einhvern tíma sem hægt væri nota til að fá einhverja vitræna niðurstöðu í þetta frekar en að halda áfram með ruglið og réttlæta það með því að þetta hafi einu sinni verið rugl og þá sé bara allt í lagi að halda því fram. Ég gef bara ekkert fyrir svoleiðis rök.