139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki uppörvandi að hlusta hér á hv. þm. Þuríði Backman. Það liggur fyrir að eyða á 12 milljónum meira á ári að lágmarki í leigu en þarf, því að það er ekki búið að endurleigja húsnæði landlæknisembættisins sem er bundið til 17 ára. Ef það verður leigt á lægra verði eða ef það á annað borð verður leigt því að nægt er framboð á húsnæði, þá er kominn aukakostnaður á það.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hv. þingmaður talaði hér um mikil samlegðaráhrif. Hvar koma þau fram? Ekki voru þau kynnt í hv. heilbrigðisnefnd. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lásum sérstaklega skýrslu Stefáns Ólafssonar og ekki er hún grunnurinn að þessu, ég trúi ekki að hv. þingmaður haldi því fram. Ég trúi því ekki.

Ég vil leiðrétta það sem hér kom fram að forstöðumennirnir hafi verið sammála um að fara í þessa sameiningu. Það kom skýrt fram hjá forstjóra Lýðheilsustöðvar að það hafi komið skipun frá ráðherra um að þau ættu að fara í þessa vinnu. Mér þykir slæmt ef hv. þingmaður ætlar ekki að leiðrétta það.

Ég vildi því spyrja í fyrsta lagi: Hvar koma þessi miklu samlegðaráhrif fram og hvar hafa þau verið kynnt? Í öðru lagi kom það fram í umfjöllun nefndarinnar að landlæknir hafi auglýst eða talað við starfsfólkið og óskað eftir áhugasömum aðilum sem vildu hugsanlega verða yfirmenn í nýrri stofnun. Hæstv. ráðherra var spurður að þessu og kannaðist ekki við þetta. Ég vildi fá að vita hvort nefndarmenn í meiri hlutanum viti hver ákvað og gaf landlækni þessi fyrirmæli. Í þriðja lagi er ekkert fjárhagslegt mat og ég spyr hv. þingmann: Hvaða skilaboð eru það til stofnana úti um allt land, heilbrigðisstofnana sem eiga að spara en þurfa svo sannarlega að (Forseti hringir.) gera sínar áætlanir þegar menn fara út í hluti eins og þessa og hér liggur ekkert fjárhagslegt mat fyrir þrátt fyrir þennan langa aðdraganda?