139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi ræddum við í heilbrigðisnefnd þennan eftirlitsþátt. Mér er kunnugt um þessar greinar, jafnt í lögum um landlækni frá 2007 sem og í heilbrigðislögum. Ég tel ekki, frú forseti, og var ekki að gagnrýna að þeim þáttum væri ábótavant í sjálfu sér. Mér fannst hins vegar í þeirri umræðu sem við áttum um þetta mikilsverða frumvarp að mestum tíma væri eytt í lýðheilsuþáttinn en minna í að velta fyrir sér hugsanlegu skipuriti um það með hvaða hætti eftirlitsþátturinn yrði, hvernig eftirlitsþáttur embættanna skaraðist við eftirlitsþátt annarra stjórnsýslustofnana.

Ástæðan fyrir því að við þingmenn minni hluta heilbrigðisnefndar leggjum ekki fram breytingartillögur á þessum þáttum í landlæknislögunum öllum er einfaldlega sú að okkur hefði þótt tímabærara og betra að vinna að þessu máli lengur, fara betur ofan í saumana á þeim tveimur stofnunum sem hér eru til sameiningar. Í stað þess að fella Lýðheilsustöð undir landlæknisembættið hefði átt að fara í eina stóra stofnun og skoða fleiri þætti.

Ég geri ekki lítið úr eftirlitsþætti landlæknisembættisins, en engu að síður er ekki mikið um eftirlitsþáttinn innan þess skipurits sem fyrirhuguð stofnun á að nota og við höfum fengið að skoða hjá starfsmönnum. Ég tel að að því þurfi að huga.