139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir svörin. Ég tel að eftirlitsþætti landlæknisembættisins sé í sjálfu sér ágætlega sinnt í þeim lögum og þeim lagafyrirmælum sem þegar eru fyrir hendi. Ég hef raunar sagt áður, bæði í ræðu og riti, að telji menn einhverju ábótavant þar ætti að veita meira fjármagn til þess því að lagaheimildirnar skortir ekki.

Vegna ummæla hv. þingmanns áðan um að það hefði átt að auglýsa allar stöður við þessa sameiningu langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur hún slíkt alltaf skynsamlegt? Hefði hv. þingmaður til að mynda talið eðlilegt við sameiningu Landspítala – háskólasjúkrahúss og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði að segja upp öllum starfsmönnunum á annarri stofnuninni eða báðum, ráða síðan alla upp á nýtt eða bjóða öllum að sækja um allar stöður? Hefði beinlínis verið praktískt að gera það á þeim vettvangi? Er alltaf skynsamlegt að gera þetta svona? Getur aldrei verið skynsamlegt að mæla sérstaklega fyrir um, eins og í undanþáguákvæði því sem tekið er fram í þessu frumvarpi, að á köflum geti verið skynsamlegt að veita undanþágu frá þeim lagaákvæðum sem hv. þingmaður kom inn á áðan að hún telji að hér sé verið að brjóta?