139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að leggja niður tvær stofnanir og stofna nýja. (Gripið fram í: Já, já.) Í þessu frumvarpi er ekki hægt að stofna nýtt embætti, það verður að stofna nýja stofnun. Hér verður til ný stofnun sem fær heitið Landlæknir – lýðheilsa, ný stofnun, ekki nýtt embætti. Ég ætla ekki að fullyrða um alltaf og aldrei, en ég tel æskilegast að við sameiningu tveggja stofnana þegar til verður ný stofnun séu störfin auglýst laus, þá fái aðrir tækifæri til að sækja um störf forstöðumanns og annarra yfirmanna. Hins vegar getur svo vel komið í ljós að allir þeir sem unnið hafa hjá umræddum tveimur stofnunum sem renna inn í nýja standi einfaldlega betur að vígi, hafi betri menntun, meiri þekkingu o.s.frv. og gangi fyrir um störf. Ég er ekki að reyna að skapa einhvern óróa meðal starfsmanna þessara tveggja stofnana, mér finnst bara eðlilegast að þannig sé að málum staðið. Hvort það á alltaf að gera það eða aldrei eða bara stundum treysti ég mér ekki til að taka afstöðu til.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, mér finnst ekki hægt að löggjafarvaldið bindi í ný lög að virða ekki eldri lög þó að það sé eingöngu til bráðabirgða.

Hvað varðar Landspítala – háskólasjúkrahús er ekki verið að leggja niður Landspítala – háskólasjúkrahús eða St. Jósefsspítala þannig að það er ekki alveg (Forseti hringir.) sambærilegt, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson.