139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á svari hv. þingmanns og þakka fyrir hreinskilnina. Hv. þingmanni finnst ekki óeðlilegt að vera með þreifingar meðal starfsmanna.

Hjá forsvarsmanni BHM kom fram að það væri í hæsta máta óeðlilegt að auglýsa ekki stöður, ef ekki almennt þá í það minnsta innanhúss. Fólki var ekki boðið að sækja um neinar stöður heldur áttu starfsmenn að lýsa yfir áhuga á að verða yfirmenn. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það vera mjög sérstök tilhögun. Í hv. heilbrigðisnefnd kom fram hjá forustumönnum BHM að starfsmenn hefðu komið og kvartað undan þessu. Ég veit ekki hvort hv. þingmanni finnst það vera lítið mál. Ef maður sækir um starf og fær það ekki verður í það minnsta að rökstyðja af hverju maður fékk ekki starfið. Það er réttur fólks sem því finnst almennt vera góður. Mér þykir miður að hv. þingmanni finnst í lagi að unnið sé með þessum hætti því að allt hefur fordæmi.

Varðandi húsaleigusamninginn þá er hann bara til staðar. Ég veit því miður ekki hver gerði þennan húsaleigusamning. Þegar ég var í ráðuneytinu var þetta ekki eini samningurinn sem var með þessum hætti. Það batt hendur ráðuneytisins. Menn nota annaðhvort peningana í þetta, í laun eða annað slíkt. Nú hefur meiri hlutinn tekið ákvörðun um að forgangsraða með því að setja meiri fjármuni í húsnæðiskostnað, ekki bara út af þessum gamla (Forseti hringir.) húsaleigusamningi heldur líka vegna þess að dýrara húsnæðistilboðinu var tekið.