139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[18:31]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vont að ég er að nýta seinna andsvar mitt, annars hefði ég getað spurt hv. þingmann. (Gripið fram í.) Mig langar til að vita hvernig hann sér fyrir sér breytingarferli eins og þegar stofnanir eru sameinaðar. Mannauðurinn er okkar helsta auðlind í þessum stofnunum og við viljum mjög gjarnan viðhalda þekkingunni sem þar er. Við slíkar breytingar verður ákveðinn óróleiki og fólk verður óöruggt með stöðu sína. Hvernig sér hann fyrir sér að hægt sé að varðveita mannauðinn og halda óöryggi í lágmarki?

Í sambandi við húsaleigusamninginn og húsnæðið, eins og kom fram í máli mínu ef hv. þingmaður hefði hlustað, þá vonast ég til þess að í húsnæðið sem nýja stofnunin fer í komi fleiri stofnanir, t.d. ný stofnun sem á að sjá um eftirlit í velferðarmálum því að ef verður af því held ég að slík stofnun eigi mjög vel heima með þessari sameinuðu stofnun. Að sjálfsögðu viljum við ráðstafa fjármagni eins skynsamlega og hægt er. Það er ekki gott mál að þurfa að vera í óvissu með húsnæði í dýrri leigu. Það er mál sem við getum vonandi leyst með framleigu. Við megum ekki láta það standa algerlega í vegi fyrir því að þróa heilbrigðiskerfi okkar áfram um leið og við gefum þau skilaboð til heilbrigðisstéttanna að okkur þyki þetta leitt og að við viljum gera allt sem hægt er til að nýta fjármagnið sem allra best.