139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna yfirlýsingu hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að iðnaðarnefnd muni taka það að sér að spyrja þeirra spurninga og fá svör við þeim spurningum sem út af standa. Það gerðist nefnilega hér fyrir jólin, eins og rifjað hefur verið upp, að Alþingi tók völdin af ríkisstjórninni sem hafði drattast með mál í fjármálaráðuneytinu í eitt og hálft ár og ekki lokið því. Þrátt fyrir yfirlýsingar um að vilja efla starfsemi gagnavera var ekki gengið í að leysa þau mál sem út af stóðu.

Eins og ég skil þetta er tvennt sem þarf að klára og vil ég því hvetja hv. þingmann, formann iðnaðarnefndar, til að spyrjast fyrir um það:

Það á eftir að staðfesta lögin sem við samþykktum, fá samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir þeim. Það þarf að ganga eftir því þannig að ljóst sé að hún setji ekki hornin í það og þessi starfsemi geti haldið óhindruð áfram. Það þarf að reka á eftir því við fjármálaráðuneytið.

Síðan er það atriðið sem varðar heimilisfesti sem ekki hefur verið gengið frá. Hvort er það reglugerð sem vantar upp á af hálfu fjármálaráðuneytisins eða einfaldlega túlkunaratriði hjá ríkisskattstjóra? Það er annað sem ég hef heyrt að standi í veginum. Ef það er rétt að ríkisskattstjóri geti einfaldlega túlkað á þann veg sem samræmist þeirri túlkun sem við höfum, og komi ekki í veg fyrir að þessi fyrirtæki geti komið hingað og hafið störf, er það náttúrlega óþolandi ef það tefst hjá því embætti. En þetta er eitthvað sem þarf að kanna og ég fagna því að þetta var tekið upp hér vegna þess að það sýnir sig enn og aftur að þingið þarf að veita hæstv. fjármálaráðherra hið mesta aðhald í þessu máli vegna þess að þrátt fyrir fögur fyrirheit er ekki verið að klára það.