139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ríkissjóður þarf á miklum tekjum að halda þessa dagana, hvort heldur er í formi skatttekna, hagvaxtar eða hagræðingar, og ég tel varhugavert að skera þær tekjur að einhverju leyti niður. Ef hins vegar myndast borð fyrir báru og tekjur ríkisins af þessum lið verða sannarlega umfram það sem áætlað hefur verið í fjárlagagerð ber að skoða leiðir til að færa þetta fjármagn til. Þar hampa ég sérstaklega hugmyndum hæstv. fjármálaráðherra um að koma til móts við flutningsójöfnuðinn sem nú er ríkjandi á landinu og skaðar mjög samkeppnishæfi framleiðslufyrirtækja úti á landi. Ég hef skoðað þetta sérstaklega með þingsályktunartillögu í huga og þar kemur í ljós að meðalstórt framleiðslufyrirtæki í Eyjafirði, svo dæmi sé tekið, matvælafyrirtæki, þarf að verja 200 millj. kr. í herkostnað einvörðungu fyrir staðsetningu sína á því svæði gagnvart aðalmarkaðssvæðinu suðvestanlands.

Þessi herkostnaður er klárlega að aukast með auknu olíugjaldi og auknum álögum en við megum heldur ekki gleyma því, frú forseti, að staða olíuverðsmála á Íslandi er að mörgu leyti skapleg miðað við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Ég held að við séum í 21. sæti af 22 þjóðum hvað varðar olíuverð enn sem komið er og hvað varðar hlutfall álagningar ríkisins í þessum flokki neysluvöru erum við vel á eftir Svíum, Norðmönnum og Dönum. Hlutfall ríkisálagna í Svíþjóð er um 60% en um 50% hér á landi svo dæmi sé tekið.

En vel að merkja, (Forseti hringir.) ef það er borð fyrir báru og tekjur myndast umfram áætlun eigum við að skoða þessa leið og skila peningunum (Forseti hringir.) til þeirra sem verða hvað harðast fyrir barðinu á þessum álögum.