139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega, eftir að vera búinn að hlusta á orðaskipti þingmanna um eldsneytisverð, að augu meiri hlutans og hæstv. ríkisstjórnar séu að opnast fyrir því að það er hvorki réttlæti né skynsemi í því fyrir hið opinbera að hagnast sérstaklega á hækkun eldsneytisverðs. Það er auðvitað ekki boðlegt fyrir fjölskyldur landsins að þær eigi að kaupa sér nýja og dýra sparneytna bíla þegar fólk berst núna í bökkum til að eiga fyrir nauðþurftum. Ég vonast til þess að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans líti til þessa því að heimili landsins hafa ekki efni á eldsneytisverðinu eins og það er í dag.

Ég vek athygli á að tveim fyrirspurnum sem ég er með, sem tengjast beint því sem við erum að ræða núna, hefur ekki verið svarað þrátt fyrir að þær hafi verið lagðar fram fyrir löngu. Sú fyrri var send inn í byrjun desember og hún varðar Íbúðalánasjóð og stöðuna hjá honum, og sú seinni var send inn 26. janúar. Eins og við vitum hafa ráðherrar tíu virka daga til að svara. Sú sem kom í janúar til hæstv. fjármálaráðherra varðar nokkuð sem hæstv. fjármálaráðherra hefur síðan rætt í þinginu undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir, snýr að fjárframlögum ríkisins og varðar skuldbindingar fjármálafyrirtækja.

Við höfum talið, virðulegi forseti, að við séum ekki að fara írsku leiðina heldur íslensku leiðina sem menn hafa hrósað mjög í erlendum fjölmiðlum. Það er afskaplega mikilvægt að við fáum upp á borðið sem allra fyrst hversu miklar upphæðir hafa farið til (Forseti hringir.) fjármála- og tryggingafyrirtækjanna og á hvaða grunni þær ákvarðanir hafi verið teknar. Það er (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við fáum upplýsingarnar núna, það er það langt síðan þessar fyrirspurnir voru lagðar fram.