139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni hér kjör í landskjörstjórn á mánudaginn og velta því aðallega upp út frá því sjónarhorni hvernig við bregðumst við áskorunum um breytingar í íslensku samfélagi og hvernig við högum okkur á Alþingi þegar kemur að þessum hlutum.

Ég verð að segja að það er ekki oft sem mann setur hljóðan í þessum sal en það gerðist vissulega á mánudaginn þegar við kusum landskjörstjórn þegar kom í ljós þegar við vorum að fara að greiða atkvæði að á listanum var einn þeirra aðila sem sagði af sér, sem axlaði ábyrgð á því klúðri sem varð á kosningu til stjórnlagaþings. Við getum svo deilt um hvort það hafi verið rétt að þessir aðilar öxluðu þá ábyrgð eða einhverjir aðrir. Mér finnst reyndar að stjórnvöld hefðu átt að taka meira á sig í því.

Mörgum okkar hér inni flaug aldrei í hug að tilnefna aftur í landskjörstjórn þá sem að mínu viti voru hálfpíndir til að segja af sér, til þess að axla ábyrgð. En hvað gerist? Einn stjórnmálaflokkur ákveður að tilnefna á ný sama manninn, og það formann þeirrar kjörstjórnar sem sagði af sér. Þetta eru skilaboð sem ég held að séu mjög röng í allri þeirri umræðu sem á sér stað um nýtt Ísland og breytingar, það er eins og það skipti engu máli þegar eitthvað klúðrast, m.a.s. þegar menn axla ábyrgð eru þeir verðlaunaðir aftur.

Hefði mér bara dottið þetta í hug hefði ég gjarnan viljað tilnefna og láta kjósa á ný sama fulltrúa og Framsóknarflokkurinn tilnefndi á sínum tíma, en það einhvern veginn hvarflaði bara ekki að okkur, ekki að nokkrum manni. (Gripið fram í: Þú hefðir …) Þetta eru óásættanleg vinnubrögð. Að mínu viti er þetta dónaskapur við þingið. Ég ætla ekki að blanda dómstólum inn í þetta að þessu sinni. (Forseti hringir.) Mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á þessu hafi ekki sýnt fram á nein skynsamleg eða skilmerkileg svör um þessa tilnefningu.