139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er sammála öllum meginatriðunum sem fram komu í máli hv. þm. Ólafar Nordal. Breyttar aðstæður kalla á breyttar aðferðir og afstaða mín í þessum málum er mjög skýr. Ég tel að það eigi að afla lögreglunni lagaheimilda til að geta gripið til þeirra rannsóknarúrræða sem hún telur þörf á til að stemma stigu við þessum nýja vágesti í íslensku þjóðlífi.

Ég horfi hins vegar til sögunnar. Sporin hafa hrætt. Þegar við horfum til síðustu aldar blasir við að slíkar forvirkar rannsóknaraðferðir voru stundum notaðar í pólitískum tilgangi. Menn sem sátu á Alþingi voru hleraðir, jafnvel forseti Alþýðusambands Íslands var hleraður í miðju verkfalli. Ég tel þess vegna að í þessum samningi þurfi að hugsa um tvennt: Í fyrsta lagi finnst mér að menn eigi að skoða mjög rækilega hvort rannsóknaraðferðir af þessu tagi séu í lögum fyrst og fremst tengdar við skilgreindar tegundir glæpa, eins og innflutning, framleiðslu og dreifingu á fíkniefnum, mansalstengda glæpastarfsemi og kúgunargjaldtökur sem fylgt er fram með ofbeldi, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan. Algjör forsenda fyrir samþykki mínu og Samfylkingarinnar við aðferð af þessu tagi er að það sé einhvers konar þinglegt eftirlit með henni. Þannig er það t.d. í Noregi og Portúgal og ég tel það algjöra forsendu.

En þá finnst mér líka að við séum komin með grundvöll sem bæði aflar lögreglunni þessara nauðsynlegu heimilda og tryggi jafnframt með aðhaldi kjörinna fulltrúa borgaranna að því verði ekki misbeitt. Þetta finnst mér vera kjarni málsins, a.m.k. eins og við sjáum hann í Samfylkingunni.