139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara efnislega ræðu hv. þm. Þórs Saaris en það hljómaði eins og hann væri í einhverri annarri umræðu en við hin. (Gripið fram í.) Það sem hann er að fjalla um á kannski ekki allt heima í þessu, en ég verð þó að lýsa því að ég er honum ósammála í því sem hann sagði um forvirku rannsóknarheimildirnar. Ég held að heimildir af þessu tagi, auknar rannsóknarheimildir lögreglu og eftir atvikum það sem kallað hefur verið forvirkar rannsóknarheimildir, séu mikilvægar og nauðsynlegar. Ég held að við getum litið til nágrannalandanna, þar á meðal Norðurlandanna, um það hvernig svona starfsemi er mótuð og hvernig eftirliti er háttað. Ég vísa til þess að í þingsályktunartillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er 1. flutningsmaður að og ég styð með því að taka þátt í að flytja er m.a. vikið að tvenns konar eftirliti með slíkum heimildum, annars vegar möguleikum á þinglegu eftirliti með sérstakri þingnefnd og hins vegar að það verði gert í gegnum sérstaka deild í dómstól þannig að dómstólaeftirlit eigi sér líka stað. Það er ekkert sem útilokar að þetta hvort tveggja verði fyrir hendi til að tryggja að ekki verði misfarið með þær heimildir sem veittar eru á þessum grundvelli.

Ég held að þessi umræða sé afar mikilvæg. Hvað sem líður öðrum meinsemdum og vandamálum í samfélagi okkar er skipulögð glæpastarfsemi nokkuð sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Það er vaxandi vandamál í nágrannalöndunum sem og hér á landi. Ef við viljum standa vörð um öryggi borgaranna þurfum við að bregðast við. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur í hyggju að beita sér fyrir breytingum í þá átt (Forseti hringir.) en ég skora eindregið á hann að skoða þá tillögu sem hér er á borðinu um forvirkar rannsóknarheimildir því að ég held að (Forseti hringir.) ekki sé verið að kalla eftir því í löggæslukerfinu að ástæðulausu.