139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:57]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hér skuli vera tekin til umræðu svonefnd skipulögð glæpastarfsemi. Tilefnið er það að menn hafa áhyggjur af því að skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi takmarkist í framtíðinni ekki eingöngu við menn með hvítt um hálsinn heldur fólk klætt í leður og stígvél, að þetta snúist ekki eingöngu lengur um að komast yfir peninga heldur að komast yfir peninga með ofbeldi.

Á allri skipulagðri glæpastarfsemi þarf að taka af mikilli hörku vegna þess að glæpastarfsemi mótast yfirleitt af tvennu, annars vegar af því að einstaklingar eru breyskir og ófullkomnir, þeim getur verið laus höndin, þeir geta verið ágjarnir. Eins og það var einu sinni kallað er manneskjan syndug. Sömuleiðis geta glæpir stafað af því að þjóðfélagið okkar er ekki fullkomið, það er ekki eingöngu við manninn sem stelur sér til matar að sakast heldur og við það þjóðfélag sem leiðir hann út í þjófnað.

Ein tegund glæpa, sú að stunda glæpi sem starf til að komast áfram, auðgast, ógna samborgurum sínum, fá stöðu í samfélaginu, slík glæpastarfsemi er skipulögð, hún er stríðsyfirlýsing, stríðsrekstur gegn samfélagi okkar og við henni ber afdráttarlaust að bregðast með öllum þeim (Forseti hringir.) ráðum sem samfélag okkar hefur yfir að ráða.