139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það skal sagt í upphafi að ég styð lögregluna og allt hennar starf, enda vita þeir sem hlustað hafa á mig að mitt álit er að lögreglan myndi einn af hornsteinum samfélagsins.

Hér erum við að ræða skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi en í þessu máli sem og öðrum er ekki horft á rót vandans, það er ekki farið ofan í grunn vandamálsins. Grunnur þessa vandamáls er sá að við Íslendingar búum á eyju og erum í Schengen. Það var alger óþarfi á sínum tíma fyrir okkur sem eyland, líkt og Breta, að ganga þessum félagsskap á hönd. Allt snýst þetta um að komast inn á hið eftirlits- og vegabréfslausa frísvæði sem kallast Schengen-svæðið.

Það sem við uppskerum hér á þessari eyju sem við gætum sjálf varið okkar landamæri að er akkúrat það sem er til umfjöllunar, skipulögð glæpastarfsemi, glæpahringir, peningaþvætti, mansal og allt það sem var talið upp áðan. Við skulum átta okkur á því hvar við búum, á norðurhjara, og auðvitað er jafnákjósanlegt fyrir glæpagengi að festa hér rætur eins og fyrir allan almennan atvinnurekstur. Það hefur verið talað um að Ísland væri t.d. heppilegur staður til að reka olíuhreinsunarstöð á. Auðvitað er það eins með skipulagða glæpastarfsemi, fíkniefnadreifingu og fólk sem er verið að selja mansali. Það er stutt héðan til allra átta. Mér finnst grunnurinn í þessu máli sem ekki er talað um og virðist einhvern veginn gleymdur, líklega út af því að það hentar ekki, vera vera okkar í Schengen.

Ég ætla ekki að fara orðum um það hvaða vandamálum Norðmenn standa frammi fyrir. Glæpaklíkurnar herja mun meira á Norðmenn en okkur Íslendinga enn sem komið er, en þetta verðum við að skoða efnislega (Forseti hringir.) og faglega því að það kostar okkur t.d. (Forseti hringir.) 130 millj. kr. að vera aðilar að Schengen-samningnum. Þeim peningum væri vel varið til löggæslunnar.