139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[15:02]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hvort rýmka eigi rannsóknarheimildir lögreglunnar þannig að stunda megi svokallaðar forvirkar rannsóknir þegar grunur leikur á skipulagðri glæpastarfsemi. Hin vanhelga þrenning skipulagðrar glæpastarfsemi, í fyrsta lagi mansals- og kynlífsþrælkunar, í öðru lagi sölu og flutnings á ólöglegum eiturlyfjum og í þriðja lagi smygls og vopnasölu, er að sjálfsögðu þess eðlis eins og skýrt hefur komið fram í umræðunni í dag að þar þarf að beita óvenjulegum aðferðum, m.a. vegna þess að glæpamennirnir beita óvenjulegum aðferðum og þess vegna köllum við það skipulagða glæpastarfsemi.

Ég hef alltaf goldið varhuga við því að lögreglan fengi of rúmar heimildir í þessu efni en ég vil segja, eins og hæstv. utanríkisráðherra og við í Samfylkingunni, að við erum tilbúin til að skoða það mjög vel að lögreglan fái rýmkaðar heimildir hvað þetta varðar, þá að gengnum dómsúrskurði. Ég vil einnig að það komi skýrt fram í þessari umræðu að það verður að vera algjörlega skilgreint hvaða tegundir glæpa er verið að rannsaka. Og í síðasta lagi, sem ég held að skipti kannski mestu máli, er að eftirlitið sé þinglegt, það tengist þinginu og að löggjafinn hafi eftirlitshlutverk í þessum erfiða en mikilvæga málaflokki.