139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[15:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Mér hefur þótt margt athyglisvert koma fram. Við erum að tala um skipulagða glæpastarfsemi þar sem menn fara fram með ofbeldi gagnvart samborgurum sínum til að ná fram glæpsamlegum vilja sínum, það er það sem við erum að tala um. Við erum ekki að tala um friðsamleg mótmæli. Við erum að tala um harðsvíraða glæpamenn sem svífast einskis í því sem þeir vilja ná fram. Okkur Íslendingum ber rík skylda til þess og stjórnvöldum, Alþingi og ríkisstjórn, að gera allt sem hægt er til að verja borgarana gegn slíkri ógn.

Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ræðu hans áðan og sérstaklega fagna ég því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, að til skoðunar sé að víkka rannsóknarheimildir lögreglunnar. Ég skynja hjá hæstv. ráðherra að lögreglan fylgist mjög grannt með því sem fram fer. Ég tek það fram hér vegna þess að hér hafa menn einnig talað um að lögreglan sé sú stofnun sem nýtur hvað mests trausts, 80% landsmanna treysta lögreglunni. Við treystum lögreglunni fyrir lífi okkar líka. Hún þarf að takast á við þau öfl sem þarna eru undir. Yfir þessu öllu saman ríkir hæstv. innanríkisráðherra og ég skynja hversu mikill þungi er núna í þessari umræðu. Ég skynja að það er mikil ógn fram undan hér og ég fylgist auðvitað á morgun með þessum fréttamannafundi sem hæstv. ráðherra vísaði til.

Ég tek líka undir þá tillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er með í þinginu ásamt fleirum og mér finnst það sýna vilja þingsins til að standa traust að baki því að borgarar landsins séu verndaðir gegn slíkum ógnaröflum þannig að ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að gera það sem rétt er (Forseti hringir.) til að sporna gegn slíkri glæpastarfsemi.