139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að bíða róleg eftir því að frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra komi hingað inn til þess að geta fengið gleggri mynd af þessu. Í nefndinni sem hún situr í, utanríkismálanefnd, getur hún við rannsókn málsins fengið — (Gripið fram í.) Jæja, það er miður. Hún getur þá í öllu falli svalað forvitni sinni með því að fela fulltrúum síns flokks að fá dæmi um hvers konar apparöt það eru sem gætu hugsanlega uppfyllt skilyrði sem munu koma fram í lögunum og þar af leiðandi fengið a.m.k. — ef hæstv. forseti leyfir mér að sletta dönsku — „anelse“ um það hvers eðlis slíkar stofnanir eru. (Gripið fram í.)

Varðandi hitt hef ég löngum stundum verið þeirrar skoðunar að þingið eigi að hafa miklu meiri og ræktarbetri tengsl við Evrópuþingið. Þegar EES-samningurinn var settur á stofn á sínum tíma var framkvæmdastjórnin frumkvæðishafinn að öllum málum, hún hóf öll mál. Við höfum samkvæmt samningnum aðild að nefndum sem voru mjög nálægt uppsprettu málanna hjá framkvæmdastjórninni. Núna er þetta bara með allt öðrum hætti.

Til að svara gagnrýni á lýðræðishallann innan sambandsins hefur Evrópuþingið eðlilega fengið stöðugt meiri völd, og frá lýðræðislegum sjónarhóli innan Evrópusambandsins er það jákvætt. Frá sjónarhóli lýðræðishalla þeirra sem eru EFTA-þjóðir og tengjast þannig EES-samningnum er það neikvætt, þ.e. okkar ítök hafa að sama marki rýrnað. Það er hægt að nefna dæmi um stórkostleg hagsmunamál sem í reynd eru núna að verulegu leyti á valdi þingsins og við höfum mjög litla formlega möguleika til að hafa áhrif, en við gætum það hins vegar með óformlegum hætti í gegnum tengsl þingflokka (Forseti hringir.) íslenska þingsins við samsvarandi flokkahópa á Evrópuþinginu.