139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:29]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Umræður um þetta mál hafa verið frekar flatlendislegar. Það er ekki venja að heyra hæstv. utanríkisráðherra sigla svo lágt sem raun bar vitni. Honum fer nú betur, hæstv. ráðherra, að fara á flug en að fara með söndum.

Ýmislegt sem komið hefur fram í þessari umræðu veldur áhyggjum. Hér hefur verið fjallað um þætti sem vega að ýmsu í okkar stjórnkerfi, viðmiði okkar við aðrar þjóðir og skyldum okkar við þær og þeirra við okkur.

Þessi umræða finnst mér hafa verið með tiltölulega miklum undirlægjuhætti gagnvart ríkjasambandi, Evrópusambandinu, sem hefur hamast við það á undanförnum missirum, virðulegi forseti, að hamra á Íslendingum eins og hamrað er með sleggju á hertum steinbít. Það molnar þótt ekki rífist á roðum.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað um að það kynni að vera skynsamlegt og árangursríkt að Íslendingar ættu fulltrúa við Evrópuþingið, að við gætum með því móti haft meiri áhrif á ríkjasambandið í Evrópusambandinu. Þetta eru gyllivonir og óraunhæfar framsetningar, virðulegi forseti, vegna þess að okkur stendur ekkert slíkt til boða, hvorki úti né inni. Það hefur sýnt sig hvernig Evrópuherrarnir hafa látið höggin dynja á þjóð okkar sem aldrei fyrr. Það hefur sýnt sig á undanförnum missirum að ekkert hefur breyst í röð sögunnar, hvort sem maður fjallar um ensku öldina á sínum tíma, áhrifatengsl Hollendinga, Spánverja, Frakka og ýmissa annarra Evrópuþjóða, áhrif til að reyna að styrkja stöðu sína á Íslandsmiðum og Íslandi. Þetta er hlutur sem við getum ekki lokað augunum fyrir, virðulegi forseti, þegar rætt er um það málefni sem hér liggur fyrir.

Þegar talað er um að eiga fulltrúa á Evrópuþingi hafa íslenskir embættismenn því miður verið kaþólskari en páfinn í túlkun á ýmsum reglum vegna Evrópska efnahagssvæðisins, verið miklu harðskeyttari fyrir hönd Evrópska efnahagssvæðisins en embættismenn annarra þjóða, til að mynda Spánar og Portúgals, fyrir hönd umbjóðenda sinna. Við búum ekki við sömu reglur. Við sitjum ekki við sama borð.

Eitt smádæmi sem tengist öllum þessum ruglpakka, því að því miður rekst hvað á annars horn í ferli þessara mála, er að fyrir ári kostaði um 200 þús. kr. að hámarki að skoða litla flugvél sem tekur ekki langan tíma. Vegna inngripa Evrópuherranna kostar það núna 2 milljónir. Það á sem sagt að ganga af því dauðu. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að rækta og styrkja, hvort sem það er flug á stórum eða litlum vélum við Ísland og út frá Íslandi, hvort sem það er það eða sjósókn og aðrir atvinnuskapandi þættir.

Það er líka stórhættulegt að mínu mati, virðulegi forseti, að fjalla um þetta án þess að benda á hætturnar og gallana, m.a. að það eru ekki hreinar línur hvaða leikreglur eru hafðar í heiðri, hvernig menn eru að vinna, ekki einu sinni hjá hæstv. ríkisstjórn sem kemur sér ekki saman um það hvort hún er að vinna í ferli að inngöngu í Evrópusambandið eða án þess að vera í ferli. Þegar eitt ráðherrabúntið stillir málum þannig upp að það sé eðlilegt að þiggja ýmsa peninga til að styrkja málstað Evrópusambandsins gagnvart Íslandi er annar hópur sem gerir það ekki. Þetta eru engin vinnubrögð, þetta er fúsk. Þetta er fúsk, dónaskapur og óvirðing við íslenska þjóð.

Ég skil ekki þegar hæstv. utanríkisráðherra klifar á því í ræðu sinni að það sé hagstætt fyrir Íslendinga að vera í tengslum við samsvarandi flokkahópa á Evrópuþinginu. Það er alveg klárt mál að til að mynda Sjálfstæðisflokkurinn á engin tengsl við neinn hóp þar. Það má kannski til sanns vegar færa með aðra flokka á Íslandi sem hafa í upphafi farar sinnar á pólitískum vettvangi sótt efnivið, fyrirmyndir og leikreglur til annarra landa. Það er alveg sama hvort við ræðum þar um Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna, sem náttúrlega hefur verið í bögglauppboðsleit um alla Evrópu að stefnumiðum, eða Vinstri græna þar sem gamall kjarni kemur beint úr kenningum og kerfi kommúnismans.

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur alla tíð og gerir enn byggt allt sitt á íslenskum grunni, íslenskri viðmiðun, íslenskum metnaði og íslenskri reynslu, íslenskum vonum og óskum. Þannig er það án þess að hægt sé að hnekkja því einu einasta orði.

Þess vegna vara ég við því sem hér er ámálgað, því að hnýta saman tengslin við svokallaða samsvarandi flokka. Við erum íslenskur flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, og viljum fyrst og fremst miða við það en ekki hnýta okkur saman við flokka sem við eigum enga samleið með, hvorki í heild né hlutum í rauninni þótt sjálfsagt sé að ræða við menn um alla þætti, bera saman bækur og reyna að ná árangri í ljósi þess.

Mergurinn málsins er að menn skyldu ganga hægt um gleðinnar dyr, virðulegi forseti.