139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnst lítið leggjast fyrir kappann, hv. þm. Árna Johnsen, að koma hér og hleypa úr fallstykkjum sínum báðum en vera svo af hólmi hopaður þegar ég loksins fæ tækifæri til að ræða við hann þau mál sem hann bar upp. Hv. þingmaður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem ekki væri í neinum alþjóðlegum tengslum og byggi bara að sínu. Ég vildi að satt væri. Það er þó sá flokkur sem á sínum tíma flutti hingað inn útlenska hugmyndafræði sem hét frjálshyggja, og allir vita til hvers hún leiddi á Íslandi. Það hefði ég gjarnan viljað ræða við hv. þingmann ef hann væri staddur í salnum. Ég vil svo gera sögulegar athugasemdir við það sem hv. þingmaður sagði.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði m.a. að við hefðum alltaf átt illt atlæti af hálfu þeirra sem að utan kæmu og nefndi sérstaklega Englendinga. Hann tók í því sambandi sérstaklega upp ensku öldina sem var á milli 1400 og 1500. Um þá öld hafa verið skrifaðar merkar bækur. Það vill svo til að Íslendingar nutu á þeim tíma atfylgis Englendinga sem hingað sóttu á skútum sínum til að brjóta á bak aftur verslunareinokun Dana. Á þeim tíma voru Englendingar eins og löngum síðar aufúsugestir hér við Ísland. Á ensku öldinni sköpuðust mikil sambönd millum Englands og Íslands. Mjög margir Íslendingar fóru á skútunum til Englands og árið 1487 voru þannig skrásettir á annað hundrað manns í Bristol. Það var einmitt upp úr því sem Shakespeare skrifaði í frægu leikriti um hinn íslenska hund og hans hringaða skott. Ég tel að þetta undirstriki það að við áttum ákaflega jákvæð samskipti við útlönd, til að mynda Englendinga, á þeim tímum. Má geta þess að þegar Sir Joseph Banks kom hingað til Íslands ungur maður áður en hann lagði upp í sinn mikla heimsleiðangur gisti hann að landshöfðingjanum í Viðey, Magnúsi Stephensen. Íslenskur fræðimaður hefur síðan leitt fram gögn sem sýna að á þeim tíma var yfirstéttin á Íslandi að bræða með sér hvort hún ætti að reyna að brjótast undan danskri stjórn með því að koma á formlegum tengslum við England. Í reynd ræddu menn þá að það væri betra að vera undir þeirra stjórn en Dana.

Þetta átti einungis að vera framlag í þá sagnfræðilegu umræðu sem hv. þm. Árni Johnsen hóf hér áðan. Hv. þingmaður sagði sömuleiðis að Íslendingar væru undirlægjur gagnvart útlöndum og átti þar við afstöðu okkar til EES-samningsins. Það er hægt að færa mörg rök fyrir því að hv. þingmaður sé ekki svo víðs fjarri sannleikanum. Staðreyndin er sú að við Íslendingar keyptum á sínum tíma ákveðið viðskiptafrelsi gagnvart mörkuðum í Evrópu með því að gangast undir það jarðarmen að taka hér upp óbreyttar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins. Það er rétt hjá honum að því marki að við höfum mjög takmarkaða möguleika á því að breyta einhverju sem þaðan kemur í krafti EES-samningsins. Það eru ein af gildustu rökunum fyrir því að söðla um og hætta með EES-samninginn, taka skrefið til fulls og verða aðilar að Evrópusambandinu.

Innan Evrópusambandsins höfum við rödd. Innan Evrópusambandsins höfum við neitunarvald. Innan Evrópusambandsins höfum við möguleika til að tengjast öðrum smáþjóðum, en reynslan sýnir að þeim tekst giska vel upp í að verja saman þá hagsmuni sem þær hafa.

Þetta vildi ég sagt hafa við hv. þm. Árna Johnsen og raunar mátti margt fleira finna að máli hans. Að lokum, hv. þingmaður gerði athugasemd við það að utanríkisráðherra drægi ekki arnsúg á flugnum. Ég vil svara því til að sá texti sem yfirleitt kemur frá þessu góða sambandi er ekki þess eðlis að hann gefi beinlínis ástæðu og tilefni til að fara á mikið bókmenntalegt flug.