139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[15:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil hefja ræðu mína á að þakka hæstv. forseta fyrir að lýsa með svo nákvæmum hætti hinum langa titli þessarar tillögu. Í henni felst að leitað er heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009. Hún felur í sér breytingu á XIX. viðauka við hinn góða samning sem kenndur er við EES, raunar um þann flokk sem fjallar um neytendavernd, og fella inn í hann tilskipun frá Evrópuþinginu og ráðinu sem auðkennd er 2008/122/EB og fjallar um neytendavernd. Hún tekur til ákveðinna þátta, skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.

Umrædd tilskipun varðar vernd neytenda og tiltekna þætti samninga um nýtingu fasteigna á skiptileigugrunni, það sem við höfum kallað, með leyfi forseta, „time share“-samninga. Þetta eru langtímasamningar sömuleiðis um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga og hún kemur í stað eldri tilskipunar sem var innleidd hér á landi með lögum nr. 23/1997. Þau lög vörðuðu gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.

Þessi nýja tilskipun felur í sér umtalsverðar breytingar frá hinni eldri. Hún kveður á um fulla samræmingu reglna í EES-ríkjum á tilteknum sviðum hennar á meðan hin eldri kvað aðeins á um lágmarkskröfur um löggjöf ríkjanna sem uppfylla þyrfti. Á þessum sviðum ber EES- ríkjum því að innleiða reglur sem eru í fullu samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

Að auki er gildissvið Evrópureglna víkkað út frá því sem gilti. Þannig taka nýju reglurnar til samninga til lengri tíma en eins árs en í eldri tilskipun var miðað við þriggja ára lágmarkstíma. Nýju reglurnar ná líka til nýrra tegunda af orlofsvörum sem hafa komið á markað á sl. árum, t.d. langtímasamninga um orlofstilboð og um endursölu- og skiptasamninga. Sömuleiðis er upplýsingaskylda seljanda aukin frá því sem áður gilti en þeirri breytingu er ætlað að hjálpa okkur neytendum til að taka upplýstar ákvarðanir um kaup. Réttur neytenda er sömuleiðis aukinn að ýmsu öðru leyti eins og með banni við eingreiðslu vegna langtímasamninga og rétti til að falla frá samningi innan 14 daga frá gerð samnings án þess að þurfa að gefa upp ástæðu og án þess að það leiði til aukins kostnaðar.

Vegna innleiðingar þessarar tilskipunar er stefnt að því að gera breytingar á þeim lögum sem ég nefndi áðan en það er hæstv. innanríkisráðherra sem fer með framkvæmd þeirra. Ég tek það skýrt fram til upplýsingar fyrir hv. þingmenn sem hlýða á mál mitt að ekki er gert ráð fyrir að slíkar lagabreytingar hafi í för með sér umtalsverðan kostnað né stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Þar sem þessi tiltekna ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því þarf samþykki Alþingis, sem ég óska eftir með framlagningu tillögunnar, fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Frú forseti. Þegar umræðu um málið slotar legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.