139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[15:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt dagskrá fundarins er næst á dagskrá tillaga til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Ég verð að segja að ég hef ákveðnar efasemdir um að tillagan sé þingtæk.

Tveir prófessorar í lögum við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík hafa lýst þeirri skoðun sinni opinberlega að með tillögunni sé farið á svig við niðurstöðu Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna. Ég tek heils hugar undir það mat prófessoranna. Ég tel að með því að fara þá leið sé brotið gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins.

Í öðru lagi er í tillögunni gert ráð fyrir að kostnaður vegna stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði. Ég hefði talið að samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar þyrfti að kveða á um slíkt í lagafrumvarpi og þingsályktunartillaga nægi ekki. Og úr því að tillagan gengur út á að Alþingi feli forseta Alþingis (Forseti hringir.) að fullfremja verknaðinn tel ég mikilvægt (Forseti hringir.) að forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, kveði upp úrskurð (Forseti hringir.) í forsetastóli um hvort þessi tillaga til þingsályktunar telst þingtæk í ljósi þeirra athugasemda sem ég hef gert.