139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar um að við eigum ekki að týna okkur í forminu. Það má örugglega taka undir það að mörgu leyti en þetta er þó gert með ákveðnum hætti í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram þannig að menn sveigja frá því formi sem hingað til hefur verið unnið eftir. Hv. framsögumaður talar jafnframt talað um að við eigum að bera virðingu fyrir því fólki sem þarna var kosið. Ekki skal ég undanskilja mig í því að bera fulla virðingu fyrir þeim einstaklingum sem þarna skipa hóp. Þetta snýst hins vegar ekkert um það. Hér liggur fyrir ályktun frá starfshópi sem leggur til að forseti Alþingis skuli, að höfðu samráði við forsætisnefnd, skipa tiltekinn hóp einstaklinga með ákveðnum aðferðum í stjórnlagaráð. Ég vil spyrja hv. framsögumann í hverju það samráð á að vera fólgið, hvernig á að taka á því ef ágreiningur kemur upp o.s.frv.