139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil fylgja þessari spurningu eftir með því að spyrja hv. framsögumann: Hvað gerist ef enginn vill taka sæti í því ráði sem hér liggur fyrir tillaga um að verði skipað? Enn fremur langar mig til að spyrja hv. framsögumann, Álfheiði Ingadóttur, að því sem lýtur að kostnaði. Hér er gert ráð fyrir að þetta sé venjuleg þingsályktunartillaga þar sem áætlað sé fyrir fjárheimildum til þess starfs sem þarna á að fara fram síðar og komi fram í fjáraukalögum, en ég leyfi mér að efast um að starfshópurinn sem gerir þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir hafi ekki rætt þau mál. Þess vegna vil ég inna hv. framsögumann eftir þeim hugmyndum og þeim skoðunum sem meiri hluti starfshópsins hafði, þeir flutningsmenn sem hér greinir, hvaða mat þeir hafa lagt á þann kostnað sem fram undan er og til hvaða ráðstafana menn hyggjast grípa t.d. þó ekki væri nema vegna launa fyrir það starf sem hér er lagt til að verði innt af hendi.