139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held við ættum að spara okkur tímann í að ræða yfir höfuð hvort verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Auðvitað blasir við að lagt er til að svo sé gert. Hér fóru fram kosningar. Hæstiréttur ógilti þær. Kjörbréf þeirra 25 einstaklinga sem hlutskarpastir voru voru afturkölluð og ógilt, en engu að síður leggur hv. þingmaður til að hinir ógildu stjórnlagaþingmenn verði skipaðir á nýtt stjórnlagaþing sem eigi að heita stjórnlagaráð. Ef þetta er ekki sniðganga þá veit ég ekki hvað sniðganga er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún átti sig á því eða hafi yfirleitt velt því fyrir sér hvaða fordæmi hún er að skapa með þessum tillöguflutningi. Hvað yrði t.d. sagt ef Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til Alþingis en hópur manna mundi engu að síður ákveða að þeir sem bestum árangri hefðu náð í hinum ógildu kosningum mundu engu að síður taka sæti á Alþingi sem starfa ætti það kjörtímabil (Forseti hringir.) undir nýju nafni? Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér að hún sé hugsanlega (Forseti hringir.) að skapa fordæmi til framtíðar sem sé býsna óheppilegt varðandi aðrar almennar kosningar sem fara hér fram næstu ár?