139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst örfá atriði. Ég tók eftir því, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að bókun mín í samráðshópnum var ekki með í fylgiskjali þingsályktunartillögunnar. Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við það en sú bókun mun koma fram sem fylgiskjal með nefndaráliti þegar málið hefur fengið meðferð í allsherjarnefnd.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt að vitna nokkuð í það álit hér til að skýra þá afstöðu sem ég talaði fyrir við afgreiðslu málsins í samráðshópnum, bæði hvað varðar afstöðuna til þeirrar tillögu sem varð ofan á hjá meiri hlutanum og eins varðandi þá leið sem ég taldi sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samráðshópnum að væri rétta leiðin miðað við þá stöðu sem upp var komin.

Ég ætla að lesa bókunina, sem er frekar stutt, en vísa að öðru leyti til greinargerðarinnar sem mun koma fram í þingskjölum þegar málið gengur lengra. Ég lagði fram eftirfarandi bókun í samráðsnefndinni. Bókunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að endurskoða stjórnarskrána og styður slíka endurskoðun. Samkvæmt gildandi stjórnarskrá er Alþingi stjórnlagaþing og getur eitt breytt stjórnarskrá og má ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð, enda ekki ástæða til. Eftir það klúður við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings samkvæmt lögum 90/2010, sem leiddi til ógildingar kosninganna í Hæstarétti, telur undirritaður fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að ekki eigi að halda áfram með hugmyndir um ráðgefandi stjórnlagaþing með tilheyrandi kostnaði og leggur til að haldið verði áfram starfi stjórnlaganefndar, þ.e. að safna gögnum um stjórnarskrármál og setja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá og útfærslu þeirra. Jafnframt hvetur undirritaður til þess að frekari undirbúningur að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði styrktur með almennri umræðu í samfélaginu og rannsóknum á stjórnarskrármálum, um leið og leitað verði ráðgjafar innlendra og erlendra sérfræðinga. Sú vinna verði á forræði Alþingis.“

Með þessu, hæstv. forseti, fylgir lengri greinargerð sem ég ætla ekki að vísa til að öðru leyti en því að þar er vikið að þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir af hálfu meiri hluta nefndarinnar um skipan stjórnlagaráðs með sömu einstaklingum og voru hlutskarpastir í hinni ógildu kosningu í nóvember. Um það segir í greinargerð með bókun minni, með leyfi forseta:

„Skipun einhvers konar stjórnlagaráðs, með þeim einstaklingum sem fengu á sínum tíma útgefin kjörbréf í kjölfar hinna ógildu kosninga í nóvember, væri augljóslega tilraun til að víkja sér undan niðurstöðu Hæstaréttar og því ekki tæk leið í stöðunni að mati undirritaðs.“

Þetta voru þau meginsjónarmið sem ég byggði afstöðu mína á. Samhengisins vegna er kannski rétt að geta þess að ég kom inn í samráðsnefndina eða samráðshópinn á síðustu stigum en þar áður hafði hv. þm. Pétur H. Blöndal setið. Sú afstaða sem ég kynnti hafði verið töluvert rædd innan þingflokks sjálfstæðismanna í aðdraganda þess að samráðshópurinn skilaði niðurstöðu og studdi þingflokkur sjálfstæðismanna afstöðuna.

Lykilatriðið varðandi tillöguna sem liggur hér frammi er spurningin um hvort verið sé að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Ég tel ótvírætt að svo sé. Ég sé ekki betur en að sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir gangi einfaldlega út á að láta eins og úrskurður Hæstaréttar eða ákvörðun hans í kærumálunum hafi aldrei fallið. Eina sem breytist, nái þessi þingsályktunartillaga fram að ganga, er að nafn samkomunnar á að breytast úr stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð og fulltrúarnir sem þar sitja eiga að fá skipunarbréf frá forseta Alþingis en ekki landskjörstjórn. Ég sé ekki betur en allt annað sé óbreytt. Ég get ekki lesið út úr þingsályktunartillögunni og greinargerð samráðshópsins annað en að ætlast sé til að verkefnin séu nákvæmlega þau sömu, umgjörð starfsins verði nákvæmlega sú sama, fyrirkomulagið verði nákvæmlega það sama, álíka langur tími til starfsins og það sem auðvitað skiptir mestu máli — að nákvæmlega sama fólkið verði valið til starfans og var hlutskarpast í hinni ógildu kosningu. Það er því bara verið að breyta um nafn, ekkert annað. Það má kalla þetta feluleik, en feluleikurinn er frekar mislukkaður að því leyti að allir sem skoða þetta hljóta að sjá í gegnum hann.

Það er ekki nóg að segjast ætla að fara að niðurstöðu Hæstaréttar ef það er ekki gert í raun. Það er rétt að í meiri hluta samráðshópsins var talað um að fara eftir niðurstöðu Hæstaréttar. En tillagan sem hér liggur fyrir felur efnislega í sér að það eigi að láta eins og ekkert hafi í skorist. Málið á að halda áfram. Verkefnið á að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Sama fólkið á að vinna að sama verkefni á sömu forsendum og áður var gert ráð fyrir. Tillagan sem slík gengur einfaldlega út á að láta eins og ákvörðun Hæstaréttar hafi aldrei verið tekin, að Hæstiréttur hafi aldrei fengið til meðferðar kærumál og hafi aldrei komist að niðurstöðu. Til hvers var verið að bjóða upp á kæruleiðir? Hvers vegna tók Alþingi þá ákvörðun að fela Hæstarétti að taka afstöðu í álitamálum sem vörðuðu kosningarnar ef það ætlaði sjálft að hafa ákvörðun Hæstaréttar í slíku kærumáli að engu? Til hvers? Ég spyr. Mér finnst þetta ótæk vinnubrögð og geri alvarlegar athugasemdir við þau.

Fleira má nefna. Í þessu sambandi má vísa til þess að gert er ráð fyrir því að til starfa taki hópur, nefnd, ráð eða hvað við köllum það á tiltölulega veikum lagalegum grunni. Ég velti því fyrir mér, sérstaklega þegar ég les þingsályktunartillöguna fram og til baka, hvort flutningsmenn telji lagalegan grundvöll undir starf þessa stjórnlagaráðs nægilega traustan verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur nefnt fjárveitingaþáttinn. Það má velta fyrir sér öðru eins og þeim skuldbindingum sem þessi hópur tekur á sig. Það má velta því upp hvort frumvarp um afnám stjórnlagaþingslaganna frá því í fyrra hefði átt að fylgja málinu? Ég spyr hv. flutningsmenn þess máls hvort þeir ætli að flytja slíkt frumvarp á næstu dögum eða áður en þetta mál nær fram að ganga. Á kannski að bíða og sjá hvað verður um þetta mál áður en stjórnlagaþingslögin verða felld úr gildi?

Að lokum má benda á þær vangaveltur sem ég hef séð í fjölmiðlum í dag, bæði á internetinu og í Morgunblaðinu í morgun, um hvernig fari ef einhverjir af þeim 25 sem eru sérstaklega útnefndir í þingsályktunartillögunni taka ekki sæti. Verða sömu forsendur á bak við val þeirra sem koma í staðinn og voru við val þessara 25? Mun hin svokallaða STV-reikniregla verða notuð til að finna út hverjir koma í staðinn? Eða verður miðað við einhvern lista sem lá fyrir eftir kosningarnar í nóvember? (Forseti hringir.) Það eru fleiri spurningar í þessu sambandi og ekki möguleiki að koma þeim að í svo stuttri ræðu. Umræðan mun halda áfram bæði hér og á vettvangi allsherjarnefndar. (Forseti hringir.) Enn er talsvert mörgum spurningum ósvarað. Ég vonast til að fá svör við einhverjum þeirra í umræðunni á eftir.