139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það að ég tel að í hinu fyrra felist hið síðara, að þar sem Alþingi geti tekið ákvörðun um að skipa hvern sem er í þessa nefnd séu þessir 25 ekki undanskildir, ég er alveg á því, en svipurinn á þessu, hæstv. forseti, er alveg afkáralegur. Alþingi tekur meðvitaða ákvörðun um að efna til kosninga. Alþingi tekur meðvitaða ákvörðun um að fela Hæstarétti úrskurðarvald varðandi þessar kosningar. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að kosningarnar séu ógildar. Alþingi ákveður engu að síður að skipa sama fólkið til sömu verka á sömu forsendum og hinar ógildu kosningar byggðu á. Það er með öðrum orðum ákvörðun Alþingis, verði þessi tillaga samþykkt, að láta eins og niðurstaða Hæstaréttar skipti engu máli. Fram hjá því kemst ég ekki. Og þó að ég ætli ekki í þessum sal að halda því fram að með þessu væri Alþingi að fremja stjórnarskrárbrot verð ég að segja að mér finnst svipurinn á þessu alveg afkáralegur og Alþingi ekki til sóma.