139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að staldra við tvö atriði í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Í fyrsta lagi verð ég að nefna, vegna þess að hv. þingmaður talaði um eins og vinsælt er að segja, að Alþingi sé ófært um að breyta stjórnarskránni. Verð ég þó að geta þess að frá lýðveldisstofnun 1944 hefur stjórnarskránni verið breytt sjö sinnum með gamla laginu. 48 greinar af þeim 80 sem nú eru í stjórnarskrá eru annaðhvort öðruvísi eða nýjar frá 1944, eða rúmur meiri hluti. Nú kann að vera að sumum þyki ekki nóg að gert. Ég get tekið undir að margt í viðbót má lagfæra og breyta en hins vegar er ekki sanngjarnt að halda því fram, eins og vinsælt er í opinberri umræðu, að Alþingi hafi reynst ófært um að breyta stjórnarskránni. Það hefur breytt stjórnarskránni sjö sinnum með gamla laginu og meiri hluta greina stjórnarskrárinnar hefur verið breytt. Svo er það umræða sem við höfum ekki tíma til að fara út í hér, hversu hratt á að breyta stjórnarskrá og hversu mikið á að breyta henni o.s.frv. En þetta eru staðreyndirnar. Sjö sinnum stjórnarskrárbreytingar á lýðveldistímanum og meiri hluta greina stjórnarskrárinnar breytt.

Svo ég snúi mér að efni tillögunnar sem hér liggur fyrir, vil ég spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort hún telji að samkvæmt tillögunni verði stjórnlagaráð einhvern veginn öðruvísi samkoma en stjórnlagaþing samkvæmt lögunum frá í fyrra að öðru leyti en því (Forseti hringir.) að fulltrúarnir fá bréf frá forseta þingsins en ekki landskjörstjórn.