139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki marga málsmetandi menn og valinkunna sem eru sammála þessari niðurstöðu þannig að ég vil biðja hv. þingmann að vera ekki með öfugmæli af þessu tagi í ræðustól Alþingis.

Hvað varðar fundinn í allsherjarnefnd spurði ég sérstaklega að því hvort þetta stangaðist á við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég hef spurt fleiri lögfræðinga að þessu. Ég fæ alltaf svarið nei. En síðan segja menn: En það gæti verið óráðlegt. Það gæti valdið því að fólk segði þetta og hitt. Að vera stjórnmálamaður er að þora að ákveða. Mér finnst algjörlega undarlegt að þingmenn ætli á átta vikum fyrst að láta forsetann koma í veg fyrir lagafrumvarp sem samþykkt var með auknum meiri hluta á þingi og síðan láta Hæstarétt með, hvað á ég að segja, smámunasemi eyðileggja þá merku tilraun sem hér er verið að gera til að fá fólk sem fólkið í landinu treystir til að gera drög að nýrri stjórnarskrá.