139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kom það. Það á ekki að láta Hæstarétt eyðileggja kosninguna. Hv. þingmaður er greinilega ósáttur við niðurstöðu Hæstaréttar og telur í ljósi þeirrar stöðu sem hún er í á þinginu að eðlilegt sé að hún hafi þá niðurstöðu að engu vegna þess að hún er henni ekki þóknanleg. Þarna kom ástæðan fyrir því af hverju gengið er fram með þessum hætti. Ég held að hv. þingmaður ætti reyndar að tala varlega um þjóðina í þessu sambandi vegna þess að þjóðin hafði engan áhuga á þessum kosningum. Það var mjög dræm þátttaka í þeim.

Ég nefndi til sögunnar, þegar ég færði rök fyrir því að með tillögunni væri niðurstaða Hæstaréttar höfð að engu, álit lagaprófessora sem eru sérfróðir á þessu sviði. Hv. þingmaður gerir ekkert með þeirra álit. Ég nefndi líka að æðsti yfirmaður dómsmála í landinu, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að hann treysti sér ekki til að styðja tillöguna, hún hugnist honum ekki, vegna þess að menn eigi að hlýta niðurstöðum Hæstaréttar. Það þarf engan geimvísindamann til að skilja hvað í þessu felst, það er alveg augljóst. Þess vegna sagði ég að æðstu menn dómsmála á Íslandi, færustu fræðimenn okkar á sviði lögfræði, hefðu komist að einróma niðurstöðu.

Hv. þingmaður segist þekkja ýmsa valinkunna menn sem hafi mælt með niðurstöðunni sem hér er lögð til að fáist í málið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða fræðimenn þetta séu. Það hefur a.m.k. farið býsna lítið (Forseti hringir.) fyrir þeim í opinberri umræðu. Það hefur verið þverfótað fyrir álitum þeirra.