139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að við séum ósammála. Ég reyndi að rekja það í ræðu minni hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu að mæla fyrir þessari leið. Ég gat þess einnig að við í allsherjarnefnd höfum verið í morgun að breyta, ég ætti að segja lagfæra eða skoða lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lýsi leiðindum mínum, virðulegi forseti, yfir því að hv. þingmaður snúi út úr vegna þess að ástæðan fyrir því er mjög einföld. Nú lúslesa menn lög um atkvæðagreiðslur svo að það sé alveg öruggt að þar sé ekkert í veginum. Þess vegna lögðu bæði starfandi formaður allsherjarnefndar og embættismenn í innanríkisráðuneytinu til að gerðar yrðu tæknilegar breytingar þannig að enginn vafi léki á um hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram. Ég mótmæli því, virðulegi forseti, að út úr þessu sé snúið. Við getum snúið út úr öllu öðru en ég mótmæli því að snúið sé út úr þessu.