139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Við stóðum frammi fyrir fjórum leiðum og engin þeirra var fullkomin, engin þeirra var fullkomlega góð og engin þeirra var fullkomlega vond en þó voru nokkrar ógerlegar eftir að við höfðum farið marga hringi í gegnum þetta ferli.

Það var svolítið merkilegt að hlusta á fulltrúa Framsóknarflokksins núna af því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson var algerlega á öndverðum meiði og það má eiginlega segja að hann sneri mér til þess að líta betur á tillöguna um stjórnlagaráð. Í upphafi var ég eindregið fylgjandi því að við mundum reyna að fara þá leið sem kölluð hefur verið fjórða leiðin, að endurtelja atkvæðin og bregðast við þeim meiri háttar ágöllum sem Hæstiréttur taldi ástæðu til ógildingar, en þá var það svo að Gísli Tryggvason lagði til hina sömu leið við Hæstarétt og hann hafnaði henni og þá þurftum við að slá hana út af borðinu. Það hefði verið praktískasta leiðin því að það hefði ekki verið mikill tilkostnaður og þá hefði maður getað orðið við hinum meintu ágöllum Hæstaréttar.

Þá skoðuðum við tvær leiðir og kannski þá leið sem talin hefur verið lagatæknilega séð besta leiðin. En við skulum ekki gleyma því að Hæstiréttur af einhverjum ástæðum, ég veit ekki hvort það er bara svona léleg stjórnsýsla eður ei en það misfórst að setja leiðbeiningar um það hvernig við ættum að bregðast við þessari ógildingu. Það sýnir kannski eðli málsins að út af því að þetta var ekki hefðbundin kosning og ekki stjórnarskrárbundin vantaði hefðbundnar tæknilegar útfærslur á því hvernig bregðast skuli við slíkri ógildingu.

Uppkosning var eitthvað sem við skoðuðum mjög vel. Ég hugsa að við hefðum sennilega náð annaðhvort sátt um það eða um það sem nú er kallað stjórnlagaráð ef ekki hefði komið til að forseti lýðveldisins ákvað að hlusta á ákall 20% þjóðarinnar um að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Þá vorum við komin í töluvert mikla tímapressu. Ég spurði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni okkar bara beint hvort hann teldi einhverjar líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn mundi þurfa að tjá sig það mikið um málið að við mundum hugsanlega missa af þessum þrönga tímafresti til að láta uppkosninguna fylgjast að með þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Mér skildist á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni að þeir þyrftu að fá að tjá sig afar mikið um þetta mál enda er það flókið og margslungið. (Gripið fram í.) Mér fannst það fullmikil áhætta. Mér fannst einhvern veginn að ef við hefðum tekið þá ákvörðun hefðum við átt á hættu að uppkosningin hefði verið í uppnámi út af málþófi eða einhverju slíku eða heitum umræðum á þinginu og það hefði kannski ekki verið hægt að bjóða þjóðinni upp á það að vera með tvær þjóðaratkvæðagreiðslur með mjög stuttu millibili. Það er gríðarlega dýrt.

Við skoðuðum leiðina að kjósa aftur frá upphafi og það var alveg ljóst, miðað við hvað kom fram í orðræðunni og umræðunni í nefndinni, að allir vildu fá að koma með tillögur að breytingum sem hefði þýtt að við hefðum þess vegna getað setið út kjörtímabilið við að ræða þær breytingar því að þær eru það veigamiklar og ég er bara alls ekki viss um að sátt hefði náðst um það.

Það var loforð núverandi ríkisstjórnar og eitt af okkar stóru málum í Hreyfingunni að þjóðin fengi að velja fulltrúa á stjórnlagaþing til þess að endurskoða stjórnarskrá okkar. Ég get alveg tekið undir, ef við ætlum að fara út í að gagnrýna framkvæmdina á öllu þessu ferli, að veigamesta gagnrýni mín snýr fyrst og fremst að því að mér hefur ekki fundist að okkur hafi tekist að ná upp umræðu um hvernig samfélagssáttmála við viljum hafa sem þjóð, en ég sé ákveðið tækifæri til þess með þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök atriði ef farið yrði út í það. Það er náttúrlega á forræði stjórnlagaráðs hvernig þær tillögur verða, hvers konar þjóðaratkvæðagreiðsla verður. En ég sé fyrir mér tækifæri fyrir þessa orðræðu þegar tillögurnar eru komnar, ég held að orðræðan og áhuginn kvikni þegar þetta er ekki lengur eingöngu abstrakt, leiðbeiningarnar um það sem stjórnlagaráð ætti að hafa til sérstakrar umfjöllunar er svolítið abstrakt fyrir venjulegt fólk.

Ég ræddi við þrjár ungar stúlkur úr Kvennaskólanum í dag sem eru í stjórnmálafræði og ég spurði þær, þær eru reyndar nýbyrjaðar, hvort þær hefðu fengið einhverja umfjöllun um stjórnarskrána í námi sínu. Svo var ekki en ég vona að það verði. En það er ýmislegt abstrakt í þessari orðræðu sem við erum vön að hugsa um en hinn almenni borgari er kannski ekkert að spá í þessar abstrakt hugmyndir um þrískiptingu valds o.s.frv. Það er ekki eitthvað sem fólk hugsar um dagsdaglega, það eru aðrir hlutir sem skipta fólk meira máli. Ég held að þegar tillögurnar verða komnar á mannamál, ég vona svo sannarlega að stjórnarskrá okkar hin nýrri verði á mannamáli og það eru meiri líkur á því ef tekið er tillit til þjóðfundarins þar sem var slembiúrtak, þúsund einstaklingar sem fengu að koma með tillögur um hvað þeim finnst mikilvægast að sé í samfélagssáttmála okkar.

Ég held að við gætum í verið hér í allan dag og í margar vikur og kannski um árþúsundir að rökræða um hvernig á að framkvæma þetta verk. Það var engin lausn góð en á endanum fannst mér rétt eftir mikla umhugsun, og ég fann það í nefndinni að það fannst engum þetta auðvelt verk, að við förum þá leið sem lögð er til með þessari þingsályktunartillögu, að þingið skipi þá 25 sem með óyggjandi hætti náðu kjöri. Við erum oft í vandræðum með hverja við eigum að velja í nefndir, á hvers forræði það er. Það er varla hægt að fá betri leiðbeiningu en þá sem kemur upp úr kjörkössum 80 þúsund einstaklinga. Mér finnst að við eigum að hlusta á það. Mér finnst að við eigum að finna lausn á þessu máli. Það er það sem við þurfum að gera. Við erum að leggja fram lausn hér, það var aldrei rætt og það var aldrei stemningin í þessari nefnd að við værum að reyna að finna einhverja leið til að vanvirða Hæstarétt, alls ekki, en við viljum heldur ekki vanvirða vilja 80 þúsund Íslendinga. Við viljum ekki vanvirða ákall um umbreytingar hér. Við eigum að finna lausn og við skulum finna hana saman. Hættum þessum Morfís-leikjum og finnum lausnir saman. Það er það eina sem ég bið um.