139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir dapurlegt að hv. þingmaður geti ekki rætt þetta mál málefnalega. Ég legg fyrir hana spurningar vegna þess að hún er einn af flutningsmönnum tillögunnar og hún svarar þeim í engu. Ég spurði hana hvort hún væri þeirrar skoðunar enn þá þrátt fyrir ógildingu Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunum að þessir 25 einstaklingar væru rétt kjörnir. Ég vil fá svar við þeirri spurningu.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann að því hver þóknun nefndarmanna í stjórnlagaráði verður. Hv. þingmaður sem flutningsmaður tillögunnar hlýtur að geta upplýst um það. Munu þessir nefndarmenn fá rúma hálfa milljón í þóknun á mánuði fyrir að sitja í þessari nefnd ríkisins? Ég hef aldrei setið í launuðum nefndum á vegum ríkisins, en ef þetta er svo tel ég að þetta séu hæstu þóknanir sem um getur í sögu nefnda hins opinbera og séu kannski meira (Forseti hringir.) á kalíberi við þær þóknanir sem greiddar eru í skilanefndum heldur en hjá hinu opinbera.